06. september. 2007 12:11
Á vegum Eyrbyggju - Sögumiðstöðvar í Grundarfirði er nú unnið að stofnun Sagnamiðstöðvar Íslands. Markmið hennar er að endurvekja og kynna sagnalist sem lifandi listform. Hér er um verulega stórhuga og metnaðarfullar hugmyndir að ræða sem fróðlegt verður að sjá hvort fái verðskuldað brautargengi. Verkefni slíkrar miðstöðvar verða margs konar og miða að því að efla vitund þjóðarinnar um þann ríkulega sagnaarf sem hún á. Helstu áherslur í starfi miðstöðvarinnar verða því að standa fyrir námskeiðum í sagnalist, skipuleggja og koma upp tengslaneti íslensks sagnafólks, standa fyrir alþjóðlegri sagnahátíð og koma á íslenskum sagnadegi um allt land. Eftir er að vinna ákveðnum hugmyndum framgang varðandi uppbyggingu Sagnamiðstöðvar Íslands, segir Ingi Hans Jónsson, forstöðumaður Eyrbyggju og hugmyndasmiður verkefnisins.
“Með uppbyggingu slíkrar menningarmiðstöðvar, sem jafnframt má telja að verði ákveðin hryggsúla í menningarlífi Grundarfjarðar, þá gæti þangað færst starsemi eins og t.d. sú sem er í samkomuhúsi bæjarins og bókasafni svo eitthvað sé nefnt.” Ingi Hans segir að enn eigi eftir að vinna þeim hugmyndum brautargengis innan bæjarfélagsins og því sé á þessu stigi ekkert hægt að segja til um hug fólks gagnvart hugmyndinni.
Nánar er rætt við Inga Hans Jónsson í Skessuhorni sem kom út í gær.