10. september. 2007 12:10
Hljómsveitin Rússíbanarnir hyggur nú á viku tónleikaferð um Vesturland í þessari viku. Fyrstu tónleikarnir verða í dag en þeir síðustu á föstudaginn kemur. Hópurinn ætlar að leika í grunnskólum á vegum verkefnisins “Tónlist fyrir alla.” Þá heldur hljómsveitin almenna kvöldtónleika á svæðinu öll kvöld vikunnar. Á tónleikunum munu Rússíbanarnir leika efnisskrá sígildra tónverka í bland við ný íslensk verk og heimstónlist. Talsvert af efninu hefur áður komið út á geisladiskum en stór hluti er nýtt efni og útsetningar hópsins. Hljómsveitina skipa Guðni Franzson, Tatu Kantomaa, Jón Steinþórsson, Kristinn H. Árnason og Matthías M.D. Hemstock.
Eins og áður segir verða grunnskólatónleikar hljómsveitarinnar í þessari viku og heimsækir hún flestalla skólana á Snæfellsnesi, í Dölum og Borgarfirði. Þá verða kvöldtónleikar í sal tónlistarskólans í Stykkishólmi í kvöld, annaðkvöld í Grundarfjarðarkirkju, í Gilinu Ólafsvík á miðvikudagskvöld en síðustu kvöldtónleikarnir verða á Landnámssetrinu í Borgarnesi fimmtudagskvöldið 13. september. Allir kvöldtónleikarnir hefjast klukkan 20:30.