13. september. 2007 07:25
Þann fyrsta september síðastliðinn breyttust útivistarreglur barna og unglinga eins og lög gera ráð fyrir á þessum árstíma. Útivistartími barna og unglinga lengist á sumrin eða frá 1. maí og styttist svo aftur á haustin frá 1. september. Tilgangur útivistarreglnanna er m.a. að tryggja að börn og unglingar fái nægan svefn. Eftir 1. september mega börn 12 ára og yngri ekki vera úti lengur en til klukkan 20:00 og unglingar 13-16 ára ekki vera úti lengur en til 22:00. Á sumrin bætast svo tvær klukkustundir við þennan útivistartíma. Að sögn Péturs St. Jóhannessonar hjá embætti sýslumannsins á Akranesi er þessum útivistartíma framfylgt í bænum sem og víðar. Bæði fylgist lögregla með þessu en að auki kemur þar að Foreldraröltið svokallaða en það er sjálfboðavinna foreldra í samvinnu við lögreglu, foreldrafélög skólanna og félagsmiðstöðina.
Með Foreldraröltinu er reynt er að ná fram samstöðu um virðingu útivistartíma og reynt að koma í veg fyrir hópamyndun barna eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið. Pétur segir þetta framtak ganga vel enda séu unglingar ekkert sérstaklega hrifnir af því að vera sendir heim af mömmu eða pabba eða af nágrannanum.