Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. september. 2007 04:30

Tónlistarskóli Borgarfjarðar orðinn fertugur

Síðastliðinn föstudag var haldið upp á að nákvæmlega 40 ár voru liðin frá stofnun Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Í skólahúsinu að Borgarbraut 23 í Borgarnesi var opið hús þar sem gestir og gangandi gátu kynnt sér starfsemi skólans og var meðal annars hægt að fylgjast með þegar börn og ungmenni nutu leiðsagnar tónlistarkennara á hin ýmsu hljóðfæri. Þá voru veitingar í boði og var gestum einnig boðið að taka lagið. Meðal annars var fulltrúum sveitarstjórnar Borgarbyggðar óvænt skipað upp í kór og látnir taka nokkur valin sönglög undir stjórn Theodóru Þorsteinsdóttur, skólastjóra. Hinn nýi Ráðhússkór þótti standa sig með prýði og fengu sveitarstjórnarmenn umsvifalaust tilboð um að syngja með í Sígaunabaróninum sem skólinn hyggst færa upp í vetur í tilefni afmælisins.

“Okkur vantar í karlaraddir sérstaklega,” sagði Thodóra og beindi orðum sínum til þeirra Sveinbjarnar Eyjólfssonar, Finnboga Rögnvaldssonar, Hauks Júlíussonar og Páls bæjarstjóra, sem vart geta samvisku sinnar vegna vikist undan slíku kostaboði um óvænta frægð á nýjum vettvangi.

 

“Þetta var nú bara mjög vel heppnaður dagur hjá okkur. Húsið iðaði af lífi og tónlist var leikin í öllum skúmaskotum fram undir kvöld. Það voru margir Borgfirðingar sem lögðu leið sína í skólann til að samfagna með okkur á afmælisdaginn,” sagði Theodóra í samtali við Skessuhorn. Hún segir að gestir hafi verið duglegir að prófa hin ýmsu hljóðfæri og tóku lagið af krafti, eins og til dæmis sveitarstjórnarfólkið sem átti ekki í neinum vandræðum með að renna sér upp og niður tónstigann á hinni óvæntu æfingu.

 

Opna húsið á afmælisdaginn sjálfan markaði upphaf afmælisdagskrár sem mun standa yfir í allan vetur. “Í lok október næstkomandi verða afmælistónleikar og á þeim mun m.a. verða frumflutt tónverkið “Á kunnar slóðir,” en það er eftir fyrrverandi nemanda skólans, Önnu Sigríði Þorvaldsdóttur. Það er kammerverk fyrir þverflautu, fiðlu og píanó. Eftir áramótin verður síðan óperettan Sigaunabaróninn eftir Johann Strauss sett upp í Gamla Mjólkursamlagshúsinu. Garðar Cortes óperusöngvari kom til okkar í vor og valdi í einsöngshlutverkin, en hann mun stýra tónlistinni en Ása Hlín Svavarsdóttir leikstýra,” sagði Theodóra.

 

Tónlistarskólarnir á Vesturlandi verða með samstarfsverkefni í haust. “Stefnt er á tónleika víða um Vesturland í nóvembermánuði þar sem fram koma nemendur úr öllum tónlistarskólunum á Vesturlandi. Þar mun m.a. kammersveit leika lög sem eru sérstaklega útsett fyrir þetta verkefni. Þá verður Tónlistarskóli Borgarfjarðar með hefðbundið skóladagatal í vetur. Fyrir utan kennsluna verða tónfundir, tónleikar, spil fyrir eldri borgara svo eitthvað sé nefnt. Það er því afskaplega spennandi og viðburðaríkur vetur framundan hjá okkur,” sagði Theodóra Þorsteinsdóttir að lokum.

 

Á myndinni er Zsuzsanna Budai, píanókennari við skólann að leiðbeina ungum píanónemanda. Sjá fleiri myndir í Skessuhorni sem kom út í dag.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is