14. september. 2007 09:19
Saltkaup ehf í Hafnarfirði er þessa dagana að reisa 1000 fermetra saltgeymslu á hafnarsvæðinu í Grundarfirði. Jón Rúnar Halldórsson framkvæmdastjóri Saltkaupa sagði í samtali við Skessuhorn að saltgeymslan muni þjóna saltþörf fiskvinnslufyrirtækja á Snæfellsnesi. Húsið rúmar 4500 tonn af lausu salti sem kemur beint að utan í skipi. „Við höfum sent um 7000 tonn vestur á Snæfellsnes á ári, landleiðina,” segir Jón Rúnar, „en með því að flytja það með skipum erum við að leggja okkar af mörkum til þess að létta álagið á þjóðvegum landsins. Saltnotkun hefur aukist talsvert á Snæfellsnesi undafarin ár og er hægt og bítandi að þokast í sömu átt og var áður fyrr.”
Húsið verður klætt með pvc plastdúki og er það fyrirtækið Suðulist sem sér um að reisa það. Jón Rúnar sagði ennfremur að húsið muni verða tilbúið til notkunar í mánaðarlok og þá verði fljótlaga byrjað að taka við salti. „Það verður afgreitt laust og í körum og við áætlum að fylla á húsið tvisvar til þrisvar sinnum á ári,“ sagði Jón Rúnar að lokum.