14. september. 2007 11:05
Í vor ákvað bæjarstjórn Grundarfjarðar að veita leikskólanum Sólvöllum heimild til þess að taka inn börn sem verða 12 mánaða gömul á árinu 2007 vegna skorts á dagmæðrum í Grundarfirði sem gæta barna á þeim aldri. Í ágúst voru svo nokkur börn á þessum aldri tekin inn á leikskólann. Sigríður Herdís Pálsdóttir, skólastjóri Sólvalla sagði í samtali við Skessuhorn að hægt hafi verið að taka inn þennan aldurshóp vegna þess að nægt rými var á leikskólanum. „Við megum hafa 70 börn hérna en núna eru 52 nemendur á tveimur deildum. Drengirnir eru 25 og stúlkunar 27. Það er óneitanlega meira álag á starfsfólkið að hafa svona ung börn en hinsvegar er afskaplega gaman og gefandi að vera með börn á þessum aldri og ánægjan víkur fyrir þreytunni. Alls starfa 14 manns á Sólvöllum og reynt er að flétta saman fjölbreyttum námssviðum, leik og daglegu lífi í skólanum,” segir Sigríður Herdís.
Á myndinni eru þrennir tvíburar sem eru í leikskólanum.
Anita Ósk, Andrea Ósk, Isabella Rut og Jón Arnar sem eru eins árs og síðan þær Þórunn Björg og Sonja Ósk sem eru að verða tveggja ára.