12. september. 2007 04:33
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að rjúpnaveiðitímabilið í ár standi frá 1. til 30. nóvember og verða þá heimilaðir 18 veiðidagar. Veiðar verða leyfðar fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Mælt er með því að veiddir verði að hámarki 38.000 fuglar. Áfram mun ríkja sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum. Ákvörðunin byggir á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði árið 2006.
Í tilkynningu frá ráðherra kemur fram að rjúpum fækkar nú annað árið í röð frá síðasta uppsveifluskeiði, en það stóð aðeins yfir í tvö ár samanborið við fjögur til fimm ár í fyrri uppsveiflum rjúpnastofnsins. Að mati Náttúrufræðistofnunar er áætlaður varpstofn 2007 um 110.000 fuglar og er það fækkun um 70.000 fugla frá því í fyrra. Við mat á veiðiþoli er miðað við að hlutföll unga í veiðistofni verði 79% það sama og talningar sýndu síðsumars 2007. Stærð veiðistofns 2007 er metin um 440.000 fuglar og með því mælt að ekki verði veiddir fleiri en 38.000 fuglar í ár.