14. september. 2007 01:17
 |
Fluguveiðimaður í Hítará |
Holli var vísað úr Hítará í Borgarfirði í fyrradag vegna þess að veiðimennirnir beittu maðki, en maðkveiði er bönnuð í ánni eftir 30. júní. Fjórir menn voru á ferð og höfðu tekið ána til leigu til tveggja daga. Hálftíma eftir að veiði hófst hafði veiðieftirlitsmaður frá leigutakanum, Stangveiðifélagi Reykjavíkur, staðið fyrsta manninn að því að beita maðki. Klukkutíma síðar höfðu allir mennirnir verið staðnir að verki við sömu iðju. Á vef SVFR kemur fram að mennirnir hafi mætt til veiði vopnaðir kaststöngum og þegar hafið veiðar með maðki. Veiðimönnunum var öllum vísað úr ánni bótalaust.
Stjórn SVFR mun fara yfir mál þeirra og líklegt þykir að þeir verði reknir úr félaginu. Þar að auki fara þeir á svartan lista hjá félaginu og fá engin veiðileyfi á vegum þess næstu árin. Fulltrúar SVFR íhuga að upplýsa aðra veiðileyfasala um hverjir voru þarna á ferð þannig að þessir menn fái ekki keypt veiðileyfi neinsstaðar næstu árin.