15. september. 2007 05:29
“Það voru vægast sagt sorgleg tíðindi sem okkur Skagamönnum bárust í liðinni viku þegar forsvarsmenn HB Granda tilkynntu að fyrirtækið væri hætt við að flytja alla landvinnslu fyrirtækisins upp á Akranes, eins og þeir höfðu tilkynnt 10. ágúst síðastliðinn,” segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA á heimsíðu félagsins. Hann segir að Akurnesingar hafi fyllst gríðarlegri bjartsýni fyrir um mánuði síðan þegar HB Grandi tilkynnti að það hygðist reisa nýtt fiskiðjuver og að öll landvinnsla fyrirtækisins yrði flutt upp á Akranes. “Þá kom fram hjá forsvarsmönnum HB Granda að forsendan fyrir því að þessi áform myndu ganga upp væru að Faxaflóahafnir myndu flýta gerð nýrrar landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi. HB Grandi stefndi að því að reisa á þeirri uppfyllingu nýtt fiskiðjuver sem yrði tilbúið síðla árs 2009. Hvernig má það vera að forsvarsmenn HB Granda tilkynna áform um að reisa nýtt fiskiðjuver án þess að vera búnir að vinna sína heimavinnu, ef þannig má að orði komast,” spyr Vilhjálmur.
Hann segir að fyrirtækið hafi byggt upp tilhæfulausar væntingar án þess að nein innistæða væri fyrir slíkum væntingum. Hann segir jafnframt að ekki megi gleyma því að eftir að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda þá hefur störfum hjá fyrirtækinu á Akranesi fækkað um 60 til 80. “Á þeirri forsendu er þessi tilkynning nú fyrir helgina gríðarlegt áfall fyrir samfélagið allt hér á Akranesi,” segir Vilhjálmur.