18. september. 2007 08:15
Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur sent samgönguráðherra, Kristjáni Möller ályktun um að vegabætur á Vesturlandi verði settar í forgang í nýrri samgönguáætlun. Á síðasta fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar var samþykkt bókun frá forseta, Birni Bjarka Þorsteinssyni þar sem segir meðal annars: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar beinir því til samgönguráðherra að setja vegabætur á Vesturlandi í forgang í nýrri samgönguáætlun. Um leið og gerð verði heildstæð áætlun um uppbyggingu og viðhald safn- og tengivega á svæðinu verði gerð áætlun um bætt umferðaröryggi á Vesturlandsvegi. Greiðar og öruggar samgöngur um Vesturlandsveg skipta ekki aðeins höfuðmáli fyrir þróun búsetu á Vesturlandi, heldur er hann mikilvæg samgönguæð fyrir landið allt, ekki síst eftir að strandflutningar lögðust af að mestu með tilheyrandi aukningu þungaumferðar um þjóðveginn.“
Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri sagði í samtali við Skessuhorn að ályktunin væri þegar farin til ráðuneytisins. „Samgönguráðuneytið hefur yfirleitt svarað erindum fljótt og vel svo ég vænti þess að svars þurfi ekki lengi að bíða. Jafnvel gæti eitthvað legið fyrir fljótlega upp úr helgi,“ sagði Páll.