18. september. 2007 12:54
Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur samþykkt bókun þess efnis að skorað verði á Rarik að hraða breytingum á eins fasa raflínum í þriggja fasa í dreibýli í Borgarbyggð þannig að búsetu- og atvinnuskilyrði í sveitarfélaginu eflist enn frekar. Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri sagði að Rarik hefði verið sent svipað erindi fyrir nokkru síðan en við því hefði ekkert svar borist. „Því var ákveðið að senda þeim áskorun, sem þegar hefur verið gert. Það er víða sem þriggja fasa rafmagns er þörf, sérstaklega fyrir stærri tæki og ástandið í dreifbýlinu hér mætti alveg vera betra í þessum efnum. Vonandi fáum við svör frá Rarik um þetta sem fyrst.“
Ekki hafa enn fengist svör frá Rarik um málið þrátt fyrir að Skessuhorn hafi ítrekað leitað eftir þeim.