19. september. 2007 07:31
Liðlega 90 verkefni bárust inn á borð lögreglunnar á Akranesi í liðinni viku. Um 30 þeirra áttu uppruna sinn í umferðinni og voru m.a. 15 manns kærðir fyrir of hraðan akstur. Nú sem undanfarin ár fylgjast lögreglumenn sérstaklega með ljósanotkun og ljósabúnaði ökutækja. “Nú þegar skammdegið færist yfir er ástæða fyrir umráðamenn bifreiða til þess að athuga hvort ekki er allt í lagi með ljós bifreiða sinna. Ekki er óalgengt að perur séu ónýtar án þess að eftir því hafi verið tekið. Á þetta sérstaklega við um afturljós. Búast má við því á næstu dögum og vikum að ökumenn bifreiða sem ekki eru með ljósin í lagi verði stöðvaðir af lögreglu. Lögregluliðin á suð-vesturhorni landsins standa sameiginlega að þessu verkefni,” sagði Jón S Ólason yfirlögregluþjónn í samtali við Skessuhorn.