19. september. 2007 03:02
Maðurinn sem slasaðist í bílslysi í Reykhólasveit á mánudag er látinn. Maðurinn slasaðist alvarlega þegar bifreið hans fór út af veginum og valt rétt fyrir austan bæinn Klukkufell síðdegis á mánudag. Hann var einn í bílnum og var meðvitundarlaus þegar að var komið. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn og flutti hún manninn til Reykjavíkur. Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að svo virðist sem maðurinn hafi misst stjórn á bifreiðinni og hún runnið út af veginum, sem er bundinn slitlagi, vinstra megin miðað við akstursstefnuna. Þar hafi bíllinn oltið nokkrar veltur uns hann stöðvaðist. Akstursskilyrði voru góð þegar slysið varð og engin hálka mun hafa verið á veginum. Hinn látni var tvítugur karlmaður af erlendu bergi brotinn. Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar tildrög slyssins.