24. september. 2007 09:40
Í nýja leikskólanum við Ugluklett í Borgarnesi var við byggingu hans gert ráð fyrir að yrðu þrjár deildir. Hafa tvær þeirra þegar verið teknar í notkun. Nú er fyrirséð vegna margra umsókna um leikskólapláss að þriðja deildir verði tekin í notkun 1. október nk. en til stóð að það yrði í fyrsta lagi um áramót. Að sögn Ásthildar Magnúsdóttur fræðslustjóra Borgarbyggðar hrúgast inn umsóknir um leikskólavist um þessar mundir og við því er verið að bregðast. „Þetta verður alveg ný staða hjá okkur því að nýja deildin verður ekki full og þar af leiðandi verður hægt að bregðast við umsóknum strax, allavega fyrir ákveðna aldurshópa. Hins vegar er bið á Hvanneyri sem stendur en þar er verið að skipuleggja nýja byggingu svo það er tímabundið ástand,“ sagði Ásthildur.