21. september. 2007 02:46
Skagamaðurinn Stefán Þór Þórðarson hefur tilkynnt að hann muni snúa heim að lokinni yfirstandandi leiktíð í Svíþjóð. Stefán leikur með liðinu Nörrköping sem er nokkurn veginn búið að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta ári. Stefán segir í samtali við Fréttablaðið í dag að hann telji að hann sjálfur eigi ekkert erindi í efstu deildina í Svíþjóð. Hann hefur verið hjá liðinu í þrjú ár og skorað 22 mörk á þeim tíma. Stefán segir að mörg lið hafi haft samband við hann á Íslandi en ekkert sé ákveðið í þeim efnum. Hann staðfestir að ÍA sé eitt þeirra liða og þar sem hann muni búa á Akranesi komi sterklega til greina að leika fyrir liðið. Stefán hefur tvívegis áður snúið heim úr atvinnumennsku og í bæði skiptin leikið með ÍA, síðast árið 2004.