25. september. 2007 11:03
Stykkishólmsbær hefur gert samning um kaup á samskipta- og skjalastjórnunarkerfi frá One Systems. Kerfið kemur m.a. skipulagi á öll óformuð skjöl, svo sem Word, Excel, tölvupóst, skönnuð skjöl, myndir o.s.frv. One Records er málakerfi sem meðal annars er inni í kaupunum en það gerir bæjarfélaginu kleift að stofna mál og flokka skjöl undir þau. Einnig er það notað sem fundabókunarkerfi sem gerir sveitarfélaginu mögulegt að búa til fundabókanir og senda þær út til fundarmanna sem hluta af verkferli. Innan kerfisins er einnig svokallað One Meeting kerfi sem getur haldið utan um starf allra nefnda, verkhópa og starfsmanna deilda sem vinna saman í hópvinnu að tilteknum verkefnum. Öll kerfin byggja á Microsoft stýrikerfi og vefviðmóti og uppfylla ýtrustu kröfur um skjalaöryggi.
Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar telur að með kerfunum verði samvinna starfsmanna bæjarins og eftirfylgni mála mun öflugari og skilvirkari en nú er. ”Við vorum að leita að einföldum og notendavænum kerfum til þess að halda utan um mál og erindi bæjarins og að vel athuguðu máli var það niðurstaðan að One Systems kerfin uppfylltu þarfir okkar fullkomlega. Eitt af One Systems kerfunum er fundakerfi sem auðveldar rafræna gerð og útsendingu fundarboða með dagskrá og ritun rafrænna fundagerða í framhaldinu og það gagnast okkur vel.”