25. september. 2007 11:44
Bíræfinn þjófur stal tækjum og búnaði úr lögreglubíl í Borgarnesi um hábjartan dag um sl. helgi og fór með góssið til Reykjavíkur. Hann sá sig síðan um hönd og skildi tækin eftir utan við lögreglustöðina í Kópavogi. Að sögn lögreglunnar er búnaðurinn að mestu óskemmdur. Maðurinn sem um ræðir var farþegi í bíl félaga síns, sem lögreglan í Borgarnesi hafði afskipti af. Var sá ökumaður handtekinn og færður á stöð en farþeginn var frjáls ferða sinna á meðan. Mikið annríki var hjá lögreglunni á þessum tíma, sem hafði tekið annan ökumann fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur þá rétt áður. Tveir lögreglumenn voru á vakt og þurftu þeir að yfirheyra mennina og gera leit í bílunum. Að sögn lögreglunnar eru fleiri grunaðir um að hafa verið í vitorði með þeim sem stal tækjunum og fór með þau suður. Vitað er hver maðurinn er og verður hann yfirheyrður þegar til hans næst.