25. september. 2007 11:46
Orkuveita Reykjavíkur hefur samþykkt styrkbeiðni umhverfisnefndar Akraneskaupstaðar um eina milljón króna til stígagerðar á Innstavogsnesi. Nefndin sótti um styrkinn sérstaklega til þessa verkefnis eftir auglýsingu og samþykkti OR þá umsókn í sumar. Á svæðinu, sem er friðland, er nú aðeins troðningur sem myndast hefur vegna umferðar fólks. Ætlunin er að koma upp stíg til að auðvelda umgengni um svæðið. Rannveig Bjarnadóttir, formaður umhverfisnefndar sagði í samtali við Skessuhorn að menn vonuðust til að hægt væri að fara í verkefnið næsta sumar. „Til að klára stíginn erum við bundin af því að fá aukið framlag. Ein milljón dugar ekki til og við gerum okkur vonir um að bærinn leggi annað eins til verksins.“
Innstavogsnes var gert að friðlandi árið 1999 og hefur umhverfisnefndin eftirlit og umsjón með því. Samkvæmt auglýsingu umhverfisráðuneytisins skal bæjarstjórn Akraness, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun, framkvæma nauðsynlegar aðgerðir til að almenningur geti notið hins friðlýsta svæðis, svo sem með lagningu göngustíga og uppsetningu fræðsluskilta þar sem því verður við komið. Almenningi er heimil för um svæðið og dvöl á því í lögmætum tilgangi sé góðrar umgengni gætt og nýta má friðlandið dúntekju og beitar.