25. september. 2007 07:00
Nokkuð harður árekstur var á móts við Hafnarskúrinn á Akranesi laust eftir klukkan 8 á mánudag. Ekki urðu slys á fólki. Sá sem olli árekstrinum stakk af eftir verknaðinn. Atvikið átti sér stað með þeim hætti að bílstjóri pallbíls var nýlega búinn að taka beygju inn á Faxabraut af Akursbraut þegar aðvífandi kom annar bíll úr gagnstæðri átt á mikilli ferð og ók á pallbílinn. Sá sem olli árekstrinum sló ekki af ferðinni heldur hélt áfram og hvarf, þrátt fyrir að bíllinn hefði umfelgast við áreksturinn. Eigandi pallbílsins náði þó bílnúmerinu og lét lögreglu vita. Áður en til frekari eftirgrennslunar kom, hringdi ökumaðurinn í lögregluna og lét vita af sér, sagðist vera nokkuð við skál. Farið var heim til hans og stóð það heima að bæði bíll og maður voru á felgunni.