27. september. 2007 10:26
Slökkvilið Borgarbyggðar var kallað út að Grunnskólanum í Borgarnesi í morgun eftir að ein kennslustofan hafði fyllst af reyk. Uppruni hans var neyðarblys sem nemendur þriðja bekkja höfðu fundið í fjöruferð fyrr í vikunni, en enginn hafði gert sér grein fyrir því hvað var þar á ferð. Þegar hópurinn hugðist rannsaka góssið sem fannst í fjörunni handlék einn nemandinn blysið og gerði það virkt með þeim afleiðingum að allt fylltist af reyk. Sá hluti skólans sem atburðurinn gerðist í, en í honum eru kennslustofur fyrsta til sjötta bekkjar, var tæmdur í snarhasti og slökkviliðið var kallað út. Starfsfólk hóf reykræstingu og slökkviliðið lauk verkinu án nokkurra vandkvæða. Kennsla gat hafist aftur í þessum hluta skólans 25 mínútum eftir hann hafði verið tæmdur. Tvær stofur þurfti þó að þrífa betur en reiknað er með því að kennsla geti hafist í þeim síðar í dag.
„Þetta kennir okkur að við þurfum alltaf að vera á varðbergi,“ sagði Kristján Þ. Gíslason skólastjóri í samtali við Skessuhorn. „Sem betur fór skapaðist ekki veruleg hætta og það gekk vel að losna við reykinn sem var staðbundinn. Þetta fór því allt saman vel.“