28. september. 2007 08:00
Á miðvikudaginn var boðið upp á vettvangsskoðun á fyrrverandi olíubirgðastöð NATO í Hvalfirði. Nokkur fjöldi mætti á svæðið, fulltrúar frá Hvalfjarðarsveit og Faxaflóahöfnum, svo og olíufélögunum, ásamt fleira fólki. Stöðin stendur í landi Miðsands og hefur verið auglýst til sölu og þarf að skila inn tilboðum fyrir 18. október. Líkt og Skessuhorn hefur greint frá óskaði stjórn Faxaflóahafna eftir viðræðum við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um mögulegt samstarf um kaupin og á sveitarstjórn eftir að taka afstöðu til þess erindis. Til að kynna sér málið sem best var farið í vettvangskönnun og m.a. var einn olíugeymir opnaður og fóru menn ofan í hann til þess að reyna að meta ástand hans.
Hallfreður Vilhjálmsson oddviti Hvalfjarðarsveitar sagði í samtali við Skessuhorn að það hefði verið áhugavert að fara niður í tankinn. Sjálfur hefði hann ekki mikið vit á svona mannvirkjum, en þeir sem best til þekktu hefðu metið ástandið gott. „Við erum að fara yfir málið ásamt fulltrúum Faxaflóahafna og munum taka ákvörðun um það í byrjun næstu viku hvort við stökkvum á þetta,“ segir hann. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar fundar á þriðjudaginn.
Á myndinni má sjá þá Stefán Ármannsson, Hallfreð Vilhjálmsson og Hlyn Sigurbjörnsson búa sig undir ferð niður í tankinn. Ljósmyndin er fengin af vef Hvalfjarðarsveitar.