28. september. 2007 10:17
Rallýkeppninni sem halda átti á Snæfellsnesi um helgina hefur verið aflýst vegna vatnsveðurs undanfarinna daga. Keppendur fóru í gær á vettvang til að skoða leiðarnar, en þurftu frá að hverfa þar sem skörð höfðu myndast í vegi og aurbleyta var svo mikil að bifreiðar sátu fastar. Jóhannes V. Gunnarsson formaður Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur sagði í samtali við Skessuhorn að ekki hefði verið annað hægt en að fresta keppninni. „Það er svona þegar menn setja Íslandsmet í rigningu rétt fyrir rall, það hefur sínar afleiðingar. En að öllu gamni slepptu þá voru menn á ferð hér í gær og sáu að vegir voru í sundur og einn bíll sat fastur á leið úr Kerlingarskarði á Vatnaleiðinni. Fjöldi leiða datt því út hjá okkur. Við þurfum að keyra ákveðinn kílómetrafjölda og hefðum getað farið þá leið að keyra þá vegi sem færir voru oftar, en við mátum það svo að þeir hefðu ekki þolað það vegna bleytu. Við viljum alls ekki skemma vegina,“ segir Jóhannes.
Hann segir að ákvörðunin um að fresta keppninni hafi verið gríðarlega erfið. Búið hefði verið að skipuleggja allt, útvega gistingu og koma upp leiðum. „Aðalmálið að mínu mati er það hve allir hafa verið jákvæðir hérna, maður var farinn að finna það hve fólk hér hlakkaði til. Við höfum fengið alveg frábærar móttökur og erum harðákveðnir í því að halda keppni hér að ári. Við erum að setja upp dagatalið fyrir næsta ár og munum bjóða heimamönnum að velja dagsetningu sem hentar þeim og aðstæðum hér. Kannski við setjum bara upp sprettrall í haust í Berserkjahrauninu sem stæði utan við Íslandsmótið, hver veit?“
Dagskrá rallýkeppna er mjög stíf og ekki er unnt að hnika þeim til. Skipuleggjendur eru því í óðaönn að finna nýtt svæði til að mótið geti farið fram um helgina. Hafa þeir verið í sambandi við sýslumann í Keflavík um að komast á braut í hans umdæmi, en ekki er ljóst hvað úr því verður.