29. september. 2007 05:15
 |
Leikur ÍA Keflavík fyrr í sumar |
Glæsilegt áhorfendamet var sett í Landsbankadeildinni keppnistímabilið 2007. Alls mættu 119.644 áhorfendur á leikina 90 í Landsbankadeildinni í ár sem gerir 1.329 áhorfendur að meðaltali á leik. Fyrra áhorfendametið var sett á síðasta tímabili þegar 90.026 áhorfendur mættu á leikina en það gerði að meðaltali 1.076 áhorfendur á leik. Metið var því bætt rækilega enda Landsbankadeildin æsispennandi fram á síðustu mínútu í ár. Flestir áhorfendur mættu á leik FH og Vals í 17. umferð en þá mættu 4.286 áhorfendur á Kaplakrika. Flestir áhorfendur mættu á heimaleiki FH eða 2.306 að meðaltali. Á KR völlinn mættu næstflestir í ár eða 1.873 að meðaltali.
Á heimaleiki ÍA á Akranesi mættu að meðaltali 1147 áhorfendur á leik. Flestir mættu á leikinn gegn FH eða 1520 manns en fæstir á leikinn gegn Víkingum eða 593. Alls mættu 10.326 manns á leiki ÍA í sumar á heimavelli. Á útileiki ÍA í sumar mættu að meðaltali 1309 gestir. Þess má að lokum geta að um þúsund manns færri mættu á leik Keflavíkur og ÍA í dag í Keflavík (891) en mættu á leikinn þegar Keflavík sótti ÍA heim fyrr í sumar (1.832), sællar minningar.