30. september. 2007 11:38
Fasteignamat ríkisins hefur lokið endurmati fasteignamats á íbúðarhúsnæði á Akranesi að beiðni bæjarstjórnar Akraness og hækkaði heildarfasteignamat um 13,6% að meðaltali. Á næstu dögum fá allir íbúðareigendur í bænum tilkynningu frá Fasteignamatinu um endurmat þar sem greint verður frá nýju mati eigna þeirra. Endurmatið tekur til 2.475 íbúðar- og bílskúrseigna á Akranesi, ýmist fullbyggðra eða í byggingu. Fasteignamat eignanna er eftir endurmatið 45.707 milljónir króna. Nær allar íbúðareignir hækka á bilinu 0 – 24%, en innan við 1% eigna lækkar um allt að 9% og er þá einkum um að ræða allra elstu húseignir í bænum. Eftir endurmatið er fasteignamat fullbyggðra íbúðareigna að meðaltali 77% af meðalfasteignamati samsvarandi eigna á höfuðborgarsvæðinu. Ef bæjaryfirvöld velja að lækka ekki fasteignamatsstuðul við næstu álagningu fasteignagjalda, mun endurmat fasteigna nú í mörgum tilfellum fela í sér tugþúsunda króna hækkun á fasteignagjöldum fyrir flestar eignir, mest þó þær nýjustu.
Af hinu endurmetna fasteignamati er lóðarmat samtals 6.141 milljónir króna og hækkaði um 6,6% við endurmatið. Lóðarmat sérbýlis hækkaði að jafnaði um 10%, en lóðarmat fjölbýlis stóð í stað. Eftir endurmatið er lóðarmatið að meðaltali 46% af meðallóðarmati samsvarandi íbúðarhúsalóða á höfuðborgarsvæðinu. Hið nýja fasteignamat tekur gildi 1. desember, en frestur til athugasemda er til 1. nóvember. Á heimasíðu Fasteignamast ríkisins www.fmr.is má nálgast eyðublað til athugasemda.