15. nóvember. 2007 02:11
Íbúafundur um neysluvatnsmál í Reykholtsdal verður haldinn í Logalandi þriðjudagskvöldið 20. nóvember kl. 20:30. Á fundinn mæta fulltrúar frá Orkuveitu Reykjavíkur til að kynna fyrirhugaðar framkvæmdir við nýja vatnsveitu. Að sögn Jakobs S Friðrikssonar hjá Orkuveitu Reykjavíkur er fundurinn haldinn að beiðni sveitarstjórnar og fyrst og fremst til að upplýsa um stöðu mála. Unnið er að hönnun veitu sem kæmi út úr Grábrókarveitu svokallaðri og færi upp Stafholtstungur og í Reykholtsdal. Þá hefur einnig verið til skoðunar hvort hægt sé að afla nægjanlegs vatns í Reykholtsdal en sökum mikilla vatnsveðra frá því síðsumars hefur reynst erfitt að leggja mat á hvort þar finnist nægjanlegt vatn til að leysa fyrirliggjandi þörf. Staða þessara mála verður kynnt nánar á fundinum eins og áður segir.