21. nóvember. 2007 04:24
 |
Áskell EA |
Síldarbáturinn Áskell EA var í dag kominn á mjög svo óhefðbundnar veiðislóðir. Í morgun fór skipið í Breiðasund, sem er austan við Stykkishólm eða á milli Látralanda og Svefneyja. Sveinn Þórir Ísaksson skipstjóri sagði í samtali við Skessuhorn í dag að hann hafi fyllt bátinn í þremur köstum og fengið 600 tonn eða þann skammt sem hann mátti taka. Sagðist Sveinn ekki vita til þess að síld hafi veiðst á þessum slóðum áður. Hann sagði ennfremur að hann hafi fengið lóðs á miðinn sem hafi leiðbeint sér á veiðislóðina. "Trillukarlinn sem leiðbeindi okkur hingað hafði áður hringt í Hafró og sagt þeim frá miklu magni af síld á þessum slóðum. Þar á bæ hafði honum ekki verið trúað." Sveinn sagði að þarna væri mikið meira magn af síld en í Grundarfirði og þó hefði magnið verið mikið þar.
Sveinn segir að síldin sé mjög góð og lóði mikið á þessum slóðum, eða frá 5 föðmun og niður á botn. Dýpið er um 30 faðmar. “Við tókum litlu loðnunótina með okkur og er hún talsvert minni er síldarnæturnar sem við notuðum í Grundarfriði. En það er vandamál að komast að miðunum vegna skerja, sem leynast þarna. Þau eru ekki merkt inn á kort, en ég fékk óvænta hjálp í morgun og hef ég plottað leiðina inn, svo ég geti gefið öðrum skipum upplýsingar um örugga siglingarleið. Það eru mörg skip á leiðinni hingað, en ætli síldin endi bara ekki inni í Hvammsfirði,” segir Sveinn og hlær, “en þangað fer ég ekki,” bætir hann við. Sveinn segir að aflanum verði dælt yfir í Hákon EA sem vinni síldina um borð hjá sér.