30. nóvember. 2007 03:21
Í dag voru undirritaðir í útibúi KB banka á Akranesi samningar við sex leikmenn ÍA-liðsins. Þar með hefur ÍA tryggt framtíðarsamninga við nánast alla leikmenn sem léku með liðinu síðasta sumar. Þórður Guðjónsson, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins, er eini leikmaðurinn sem eftir er af þeim sem voru með samninga til næsta hausts. Einu leikmennirnir sem horfið hafa á braut frá ÍA eru Dean Martin og Arnar Már Guðjónsson sem fóru til KA á Akureyri. Þá á Kári Steinn Reynisson eftir að gera upp við sig hvort hann heldur áfram knattspyrnuiðkun.
Stefán Þór Þórðarson er nú kominn til ÍA að nýju eftir að hafa verið erlendis í atvinnumennsku í nokkur ár. Samningur Stefáns er til eins árs. Samið var við fjóra leikmenn sem skipuðu stórt hlutverk hjá ÍA síðasta sumar og er ætlað enn stærra hlutverk á næstu árum, að sögn Þórðar framkvæmdastjóra. Þetta eru Páll Gísli Jónsson markvörður, varnarmaðurinn Árni Thor Guðmundsson og miðju- og sóknarmennirnir Jón Vilhelm Ákason og Andri Júlíusson. Gerður var þriggja ára samningur við þessa leikmenn, en þeir áttu allir eftir ár af sínum samningi. Þá var einnig samið við Sölva Geir Gylfason til tveggja ára. Sölvi er úr Borgarnesi og hefur leikið með 2. flokki ÍA að undanförnu.
þá
Ljósmynd: Frá undirskrift samninga við leikmenn ÍA. Frá vinstri talið: Jón Vilhelm Ákason, Árni Thor Guðmundsson, Andri Júíusson, Páll Gísli Jónsson og Sölvi Geir Gylfason. Fyrir aftan standa Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri ÍA, Haraldur Ingólfsson aðstoðarútibússtjóri KB banka og Gísli Gíslason formaður Rekstrarfélags Knattspyrnufélags ÍA.