Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Þriðji Laugardagur í Gormánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. janúar. 2008 09:27

Bæjarstjóri fer yfir árið

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri í Grundarfirði gerir liðnu ári ágæt skil í grein sem hann hefur skrifað í tilefni áramótanna. Þar fer hann yfir farinn veg og mörg mál sem snerta íbúa Grundarfjarðar. Þar hafa ýmsar ánægjulegar framkvæmdir átt sér stað árið 2007 sem bæta munu hag íbúa, svo sem bygging frystihótels, efling Sagnamiðstöðvar og annað sem hann kallar heimasmíðaðar mótvægisaðgerðir. Þá fer bæjarstjórinn yfir áhrif niðurskurðar í þorskveiðiheimildum, herför Morgunblaðsins gegn útgerðarfyrirtækjum, húsnæðismál Fjölbrautaskólans og m.m.  fleira. Skessuhornsvefurinn birtir grein Guðmundar Inga í heild sinni hér að neðan:

Árið 2007; viðburðaríkt ár með mörgum ánægjulegum áföngum en einnig örfáum síður ánægjulegum.

 

Árið 2007 sem senn líður í aldanna skaut hefur fært okkur í Grundarfirði marga ánægjustundina en einnig nokkra atburði sem eru síður ánægjulegir.  Hér á eftir mun undirritaður fara nokkrum orðum um það sem situr í hugskotinu þegar litið er yfir árið.  Ekki er um annál eða samantekt á öllum markverðum atburðum að ræða, frekar hugleiðingar bæjarstjórans við áramót.  Byrjað verður á því neikvæða en síðan farið í skemmtilegri atburði sem vonandi munu lifa lengur í minningunni.

 

Skerðing aflaheimilda í þorski:

Þau dapurlegu tíðindi bárust frá ríkisstjórninni í byrjun júlí-mánaðar að hún myndi skerða aflaheimildir í þorski um 30% á fiskveiðiárinu 2007-2008 og næstu tvö árin þar á eftir.  Þessi ákvörðun er gríðarlegt áfall fyrir byggðarlög sem byggja afkomu sína að miklu eða mestu leyti á sjósókn og veiðum.  Skerðingin kemur niður á afla- og tekjumöguleikum útgerðarfyrirtækjanna í Grundarfirði.  Það má þó segja fyrirtækjunum okkar til hróss, að þau hafa haft allar klær úti til þess að ná sér í viðbótarkvóta.  Með því stefna fyrirtækin að sem næst óbreyttri sókn og að afli þeirra verði ekki mikið minni á þessu fiskveiðiári en verið hefur undanfarin ár.  Ef ekkert kæmi til og afli minnkaði sem næmi skerðingu aflaheimildanna, gæti tekjuminnkun Grundarfjarðarbæjar orðið allt að 50 m.kr. á hverju þessara þriggja ára.  Ef af slíkri tekjuminnkun yrði, myndi það óhjákvæmilega koma niður á þjónustu bæjarins við íbúana.  Vonandi gengur það eftir að útgerðarfyrirtækin haldi sínu striki og nái svipuðum afla og fyrri ár sem gefur vonir um að tekjuminnkun bæjarsjóðs verði ekki af þeirri stærðargráðu sem áður var getið.

 

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar:

Samhliða tilkynningu um skerðingu aflaheimilda, tilkynnti ríkisstjórnin að hún myndi efna til margvíslegra mótvægisaðgerða til þess að milda áfallið í þeim byggðarlögum sem helst verða fyrir barðinu á skerðingunni.  Boðaðar mótvægisaðgerðir hafa verið að koma fram í dagsljósið smátt og smátt.  Flýtt verður um nokkra mánuði endur-bótum og uppbyggingu vegakafla sem hvort sem er stóð til að fara í.  Fyrirhugaðar úrbætur á fjarskiptasambandi og háhraðatengingum verða e.t.v. eitthvað fyrr á ferð en upphaflega var áætlað.  Gerð jarðganga verður flýtt um eitt ár eða svo.  Störfum í Ísafjarðarbæ á vegum ríkisstofnana verður fjölgað.  Efnt verður til námskeiða fyrir konur sem starfað hafa í fiskvinnslu á Vestfjörðum.  Veitt hefur verið framlögum til rannsókna- og þróunarverkefna, m.a. í Stykkishólmi og í Snæfellsbæ.  Ýmis önnur atriði hafa verið kynnt sem mótvægisaðgerðir víðs vegar um landið.  Þetta er allt saman gott og blessað svo langt sem það nær og ekki er verið að amast við neinu af þessu.  Ekkert af þessu kemur þó Grundfirðingum beint til góða.  Það var ætlunin að mótvægisaðgerðirnar kæmu til þeirra sem yrðu fyrir tekjumissi vegna kvóta-skerðingarinnar, var það ekki?

 

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur ítrekað spurt um það hvaða mótvægisaðgerðir verði raunverulegar fyrir bæinn, fyrirtækin og einstaklingana sem mögulega missa tekjur vegna skerðingarinnar.  Bæjarstjórnin hefur lagt fram tilmæli og upplýsingar um margvísleg verkefni í Grundarfirði sem gætu verið upplögð sem mótvægis-aðgerðir.  Ríkisstjórnin hefur ekki svarað bæjarstjórninni með neinu öðru en almennum yfirlýsingum ráðherra í fjölmiðlum sem ekki hafa gefið fyrirheit um að til standi að uppfylla væntingarnar sem vaktar voru síðastliðið sumar.  Þingmenn kjördæmisins hafa einnig ítrekað verið spurðir um mótvægisaðgerðir og hvenær von væri til þess að þær kæmu fram.  Þeir hafa væntanlega ekki haft mikið um þetta mál að segja, enda hafa þeir ekki getað upplýst um það.  Þingmenn kjördæmisins hafa á margan hátt reynst Grundfirðingum vel í okkar hagsmunabaráttu, en í þessu máli virðist sem þeir hafi ekki haft aðgang að ákvarðanatökum.

 

Segja má, að skortur á mótvægisaðgerðum þar sem þeirra er raunverulega þörf, hafi komið skýrlega fram þegar ljóst varð til hvaða byggðarlaga og verkefna eins milljarðs króna framlag til viðhalds opinberra bygginga mun renna á næstu tveimur árum.  Af einum milljarði króna samtals renna rúmlega 400 m.kr. til viðhalds á ríkisstofnunum í byggðarlögum sem ekki verða sýnilega fyrir þungum búsifjum vegna skerðingar á aflaheimildum.  Sá hluti er þar með varla gjaldgengur sem mótvægisaðgerð, eða hvað?  Af því sem eftir er, renna hátt í 500 m.kr. til Suðurnesja, Vestmannaeyja og Vestfjarða.  Það er því ekki von til þess að stórar fjárhæðir renni til annarra staða þó hlutfallslega verði þeir fyrir jafnmiklum búsifjum af völdum skerðingar á aflaheimildum eða meiri.  Þessi ráðstöfun getur svo eiginlega ekki í heild talist til mótvægisaðgerða, þar sem hún snýst öll um löngu tímabær viðhaldsverkefni á eigum ríkisins sem til stóð að fara í hvort sem er.  Það hefði verið nær og væntanlega staðið betur undir hugmyndafræðinni um mótvægisaðgerðir, að sveitarfélögin sem verða fyrir áföllum vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar, hefðu fengið fjárframlög til viðhaldsverkefna á opinberum byggingum í þeirra eigu.

 

Grundarfjarðarbær mun væntanlega fá eitthvað úr 250 m.kr. potti sem verið er að deila út á þessu ári og á næstu tveimur árum.  Hvaða upphæð það verður er ekki vitað nú, en vitanlega verður það framlag vel þegið hver sem upphæðin verður.  Allt annað jákvætt sem kann að koma fram í þessu máli verður metið að verðleikum.  Það breytir ekki því, að ríkisstjórnin hefði getað staðið betur að samráði, viðræðum og samskiptum við sveitarfélögin í þessu máli öllu, svo ekki sé nú minnst á samráð og aðgerðir fyrir útgerðarfyrirtækin og sjómennina.

 

Morgunblaðið og herför þess gegn útgerðarfyrirtækum:

Morgunblaðið tók sig til síðastliðið sumar og setti fram getgátur um að stórfellt svindl væri stundað í sjávarútvegi við útflutning á ferskum fiski.  Blaðið setti einnig fram getgátur um brottkast afla á miðunum.  Að vonum vöktu greinaskrif blaðsins mikil viðbrögð útgerðarmanna, m.a. hér í Grundarfirði.  Ritstjóri blaðsins kom til fundar í Grundarfirði um skrifin og meiningar blaðsins ásamt greinahöfundinum.  Ekki var mikill árangur af þeim fundi og blaðið situr við sinn keip og þjófkennir verulegan hluta af þeim sem stunda sjósókn og útflutning á ferskum fiski.  Morgunblaðið hefur ekki hug á að sýna fram á hverjir stundi þessa meintu iðju, heldur lætur nægja að vísa í frásögn óþekktra aðila sem byggja á „ólyginn sagði mér“.  Morgunblaðið er auðvitað frjálst að sinni skoðun, en hver skyldi tilgangur þess vera með skrifum af þessu tagi sem í raun setur grunsemdarblett á alla sem starfa í greininni auk fjölda opinberra starfsmanna?  Ætli andóf þess gegn kvótakerfinu hafi einhver áhrif á það með hvaða augum blaðið metur útgerðarfyrirtækin?

 

Ríkisvaldið og bygging framhaldsskóla:

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi norðanverðu stóðu saman að byggingu húsnæðis fyrr Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem hóf starfsemi á árinu 2004.  Verkefnið tókst afskaplega vel og nú starfar skólinn í góðu húsnæði sem sniðið var að þörfum hans og þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með og m.a. menntamálaráðuneytið samþykkti.  Samkvæmt ákvæðum laga ber ríkisvaldinu að greiða 60% af stofnkostnaði framhaldsskóla.  Ríkisvaldið hefur þó sett á eigin spýtur e.k. „norm“ stærðir og „norm“ kostnaðartölur sem það miðar sín framlög við.  Þá skiptir ekki máli hver raunverulegur kostnaður verður né heldur hvort sá kostnaður er óhjákvæmilegur eða ekki til þess að skólastofnunin geti starfað eins og henni er ætlað að gera.  Í tilfelli FSN er staðan sú, að vegna þessa viðhorfs og vinnureglu ríkisvaldsins, eru sveitarfélögin á norðanverðu Snæfellsnesi nauðbeygð til þess að leggja fram tugi milljóna af þröngri fjárhagslegri stöðu sinni til þess að halda rekstri húsnæðisins á floti.  Mikið hefur verið reynt til þess að fá ríkið að samningaborði svo leiðrétta megi stöðuna.  Menntamála-ráðherra hefur verið heimsóttur og rætt hefur verið við þingmenn margsinnis um málið.  Allt kemur fyrir ekki.  Ríkið er eins og þrítugt bjarg, því verður ekki haggað og það setur sínar leikreglur einhliða og án tillits til raunveruleikans.  Við verðum að meta það við ríkið að það skyldi þó taka einhvern þátt í þessu verkefni með Snæfellingum, því skólinn hefur staðið undir væntingum og meira en það og því fagna allir.

 

Þróun íbúafjölda og sókn bæjarstjórnar Grundarfjarðar með heimasmíðuðum mótvægisaðgerðum:

Á yfirstandandi ári og árinu 2006 fækkaði íbúum Grundarfjarðar nokkuð.  Þann 1. desember sl. voru íbúar Grundarfjarðar 918, en voru flestir 974 á sama degi árið 2005.  Á tveimur árum hefur því hlutfallsleg fækkun orðið 5,75%.  Þetta er athyglisverð þróun í ljósi þess að atvinna hefur verið næg og ekki eru áberandi ástæður á staðnum sem skýra þessa þróun.  Yfir-standandi skerðing veiðiheimilda kann þó að hafa haft einhver áhrif á þróunina á þessu ári.  Við greiningu á ástæðum einstakra fjölskyldna fyrir brottflutningi hafa verið nefnd atriði eins og von um hærri tekjur á höfuðborgarsvæðinu, nám í útlöndum, betri vinna fyrir maka og betur launuð vinna annars staðar á landsbyggðinni eins og t.d. í álverksmiðjunni á Reyðarfirði.  Allt eru þetta atriði sem eru skoðunarverð, en sum hver eru þess eðlis að það er ekki á okkar færi að breyta neinu þar um á skömmum tíma.  Meiri tekjuvon og fjölbreyttara úrval starfa eru leiðandi atriði sem flestir nefna.  Þetta eru þættir sem við getum á lengri tíma leitast við að ná árangri í.  Atriði eins og nám unglinga í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, eða annars staðar, er ekki áberandi þáttur lengur þegar spurt er um ástæður fyrir brottflutningi.  Veruleg fækkun íbúa hefur átt sér stað undanfarin ár víða á landsbyggðinni og hún virðist hafa stungið sér niður í Grundarfirði undangengin tvö ár.  Íbúum á Snæfellsnesi fækkaði í heild á yfirstandandi ári.  Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur ákveðið að snúa vörn í sókn, m.a. með ráðningu markaðsfulltrúa og stefnumótun í ferðaþjónustu.  Þessar aðgerðir af hálfu bæjarstjórnarinnar eru hluti af mótvægisaðgerðum hennar vegna skerðingar á aflaheimildum í þorski.  Undirritaður efast ekki um að íbúum eigi eftir að fjölga á ný, enda er kraftur íbúanna og framfarasókn fyrirtækjanna á staðnum slíkur, að þróunin getur eiginlega ekki orðið með öðrum hætti þegar til lengri tíma er litið.

 

Og þá er komið meir en nóg af nöldri núna og rétt að fara frekar yfir það fjölmarga jákvæða og ánægjulega sem bar að garði á líðandi ári.

 

Framfarasókn í Grundarfirði þrátt fyrir áföll af hálfu ríkisvaldsins og tímabundna fækkun íbúa:

Margt jákvætt og skemmtilegt hefur borið að okkur á líðandi ári eins og oftast áður. 

Hér á eftir verður getið um nokkur minnisstæð atvik og atburði á árinu en ekki er um tæmandi lista að ræða.

 

Frystihótel, saltskemma og aðstöðuhús byggt við Norðurgarð:

Fyrirtækið Snæfrost hf. tók til starfa á árinu með nýsköpunarverkfeni í Grundarfirði sem er frystihótel.  Fyrirtækið byggði yfir starfsemi sína á nýrri landfyllingu við Norðurgarð.  Starfsemin hefur farið vel af stað og eiginlega talsvert betur en vonir stóðu til.  Ástæða þess er m.a. hin mikla síldargengd sem verið hefur í Grundarfirði á liðnu hausti.  Sum síldveiðiskipin hafa notað þessa nýju þjónustu í bænum til þess að spara sér dýrar siglingar um langan veg.  Saltkaup hf. byggði skemmu fyrir saltbirgðir þess á Snæfellsnesi.  Saltkaup hf. mun dreifa salti til viðskiptavina sinna frá skemmunni í Grundarfirði sem byggð var á landfyllingunni við Norðurgarð einnig.  Djúpiklettur ehf. hefur hafið bygginu aðstöðuhúss fyrir starfsemi sína á landfyllingunni við Norðurgarð sem þar með er fullnýtt eða svo gott sem.  Fyrir dyrum stendur að stækka frystihótelið fyrr en upphaflega var áætlað.

 

Fangelsið að Kvíabryggju dafnar og stækkar:

Fangelsið að Kvíabryggju var stækkað og endurbætt á árinu.  Þar rúmast nú 22 fangar í stað 14 áður.  Segja má að starfsemi fangelsisins hafi verið efld til muna með þessari breytingu og er það vel.  Fangelsið er svokallað „opið fangelsi“ og er sniðið að fyrirmynd frá öðrum löndum.  Það byggir á því að föngum er sýnt mikið traust en á móti þurfa þeir að standa undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar.

 

Ferðaþjónustan tekur flugið:

Ferðaþjónustan í Grundarfirði hefur blómstrað á árinu.  Hótel, gistiheimili, tjaldsvæði og önnur aðstaða hefur verið mikið nýtt af ferðafólki á árinu og vekur það vonir um að þessi atvinnugrein muni eflast til framtíðar.  Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að ráða ráðgjafafyrirtækið ALTA til stefnumótunarvinnu í ferðaþjónustu.

 

Fjölskyldustefnan virkar og SOS námskeiðin ganga vel:

Í samræmi við Fjölskyldustefnu Grundarfjarðarbæjar var haldið áfram með SOS námskeiðin fyrir foreldra og starfsfólk sem hefur með börn að gera.  Námskeiðin hafa tekist afar vel og er gert ráð fyrir að þau haldi áfram á komandi árum eða a.m.k. á meðan verkefnin undir merkjum Fjölskyldustefnunnar eru virk.  Sömuleiðis var haldið áfram með framtakið að færa nýjum/nýfæddum Grundfirðingum sængurgjafir og hefur það mælst vel fyrir.

 

Grundarfjarðarbær og Eyrbyggja - Sögumiðstöð taka höndum saman:

Samningur á milli Grundarfjarðarbæjar og Eyrbyggju - Sögumiðstöðvar var undirritaður á haustmánuðum.  Samningurinn er nokkurs konar þjónustusamningur þar sem Sögumiðstöðin tekur að sér ákveðin verkefni og að útvega fundaaðstöðu fyrir bæinn sem hann greiðir fyrir ákveðna fjárhæð á hverju ári.  Samningurinn er til fimm ára að viðbættu árinu 2007.  Vonast er til þess að samningurinn tryggi rekstrargrund-völl fyrir Sögumiðstöðina sem hefur ekki haft öruggt bakland að því leyti fyrr.  Eyrbyggja - Sögumiðstöð mun leita eftir framlögum og styrkjum víðar, m.a. af fjárlögum.  Starfsemi Sögumiðstöðvarinnar er mikilvægur þáttur í bæjarlífinu sem ástæða er til að standa vörð um og hlúa að.  Eyrbyggja - Sögumiðstöð hefur háleit markmið með starfsemi sinni og m.a. er unnið að stofnun „Sagnamiðstöðvar Íslands“.

 

Nýjar og endurbættar verslanir í Grundarfirði:

Samkaup hf. eru við áramótin að leggja síðustu hönd á nýtt verslunarhúsnæði við Grundargötuna.  Verslunin var formlega opnuð í nóvember síðastliðnum við hátíðlega athöfn.  Grundfirðingar og gestir þeirra hafa tekið nýju versluninni fagnandi enda er aðstaðan gjörbreytt frá því sem var í gamla húsnæðinu.  Í sama húsnæði er einnig apótek Lyfju sem áður var við Hrannarstíg.  Mareind ehf. opnaði nýja verslun með tölvuvörur í desember með glæsilegri opnunarhátíð og góðum tilboðum.  Mareind ehf. hyggst sækja fram á öflugan hátt í þessari verslunargrein á Snæfellsnesinu. 

 

Iðnaðarmenn og verktakar fullbókaðir:

Iðnaðarmenn og verktakar í Grundarfirði hafa sennilega aldrei haft meira að gera en á líðandi ári.  Það er svo komið að erfitt er að fá iðnaðarmenn í nokkur verk.  Þetta er auðvitað angi af þenslunni sem verið hefur allsráðandi undanfarin ár.  Þetta endurspeglar einnig hátt framkvæmdastig í byggðarlaginu og er því fagnað af heilum hug.

 

Unglingalandsmót UMFÍ 2009 í Grundarfirði:

Það vakti mikinn fögnuð hér þegar fyrir lá að stjórn Ungmennafélags Íslands hafði tekið þá ákvörðun að unglingalandsmót félagsins verði haldið í Grundarfirði árið 2009.  Til þessa verkefnis var stofnað af hálfu Héraðssambands Snæfellsnes og Hnappadalssýslu (HSH) með stuðningi Grundarfjarðarbæjar.  Þetta er mikil áskorun fyrir okkur og um leið hvatning til þess að herða enn frekar á undirbúningi að byggingu nýrrar íþróttamiðstöðvar í bænum.  Nýbúið er að skipa framkvæmdanefnd fyrir mótið og mun hún koma saman til fyrsta fundar snemma á nýju ári.  Við munum nálgast þetta verkefni af virðingu fyrir þessu mótshaldi sem hefur skapað sér mikinn sess um verslunarmannahelgina á  hverju ári.  Við munum leggja mikinn metnað í að mótshaldið takist sem best og að það verði okkur til sóma.

 

Grundfirskir tónlistarmenn slá í gegn:

Grundfirska hljómsveitin „Feik“ sló í gegn í Paimpol vinabæ Grundarfjarðar í Frakklandi á árlegri hátíð þar síðasta sumar og svo jafnvel enn betur á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi nokkrum dögum síðar.  Sagt er að hljómsveitin eigi vísa endurráðningu á næsta heimsmeistaramót.

 

 

Bæjarhátíðin stækkar og stækkar:

Bæjarhátíðin „Á góðri stundu“ tókst með besta móti.  Mikill fjöldi gesta sótti bæinn heim og hefur annar eins fjöldi húsbíla og hjólhýsa ekki sést í bænum áður.  Skólastjóri og kennarar við Tónlistarskóla Grundarfjarðar tóku sig til og framleiddu geisladisk með mörgum frábærum lögum sem hópur heimamanna flutti.  Þar á meðal er frumsamið lag „Á Góðri Stund“ eftir þá félaga sem sló eftirminnilega í gegn.

 

Í minningu látins höfðingja:

Á árinu féll frá einn af þingmönnum kjördæmisins til margra ára, Einar Oddur Kristjánsson frá Flateyri.  Einar Oddur starfaði af mikilli elju að málefnum sveitarfélaganna í sínu kjördæmi og eru honum færðar þakkir við leiðarlok.

 

Að lokum:

Við áramót er gott að hugsa til baka og minnast góðra og ánægjulegra samskipta, hvort heldur er á sviði stjórnsýslunnar eða á öðrum vettvangi á líðandi ári.  Fjölmargra ánægjulegra atvika og samskipta er minnst með þakklæti þó þau sé ekki unnt að tíunda öll í þessum pistli sem orðinn er of langur.  Sérstaklega vill undirritaður þakka íbúum Grundarfjarðarbæjar og samstarfsfólki fyrir ánægjuleg og hlýleg samskipti á árinu og um leið senda bestu óskir um farsæld á nýju ári.

 

 

Á milli jóla og nýárs 2007,

með ósk um ánægjuleg og friðsæl áramót,

 

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson,

bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is