Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. janúar. 2008 01:00

Borgarnes kjötvörur seldar Sundagörðum

Á gamlársdag var gengið frá sölu allra hlutabréfa Sparisjóðs Mýrasýslu í Borgarnes kjötvörum ehf. sem rekin er við Vallarás í Borgarnesi. Kaupandi fyrirtækisins er Sundagarðar hf. í Reykjavík. Samhliða kaupunum verður ráðist í mikla endurskipulagningu rekstrar enda hefur fyrirtækið verið rekið með umtalsverðu tapi síðastliðin ár og nánast fyrir opinn reikning hjá fyrrum eiganda þannig að skuldir fyrirtækisins eru miklar. Að sögn Gunnars Þórs Gíslasonar, framkvæmdastjóra Sundagarða og eins af eigendum fyrirtækisins, hefur níu starfsmönnum úr öllum deildum Borgarnes kjötvara verið sagt upp störfum frá og með síðustu mánaðamótum og hafa þeir frá einum til þrjá mánuði í uppsagnarfrest. Meðal fyrirhugaðra breytinga á rekstri má nefna að salatgerð verður aukin sem og slátrun og grófvinnsla á stórgripum. Sauðfjárslátrun verður hætt í Borgarnesi og fullvinnsla ýmissa kjötafurða flutt suður, þó ekki framleiðsla á hinu landsfræga kjötfarsi, eðalafurð Borgarnes kjötvara til áratuga.

 

Samlegðaráhrif og sérhæfing

Sundagarðar hf. eru í eigu Gísla V. Einarssonar og fjögurra barna hans. Fjölskyldan á ýmis fyrirtæki í matvælavinnslu sem rekin eru undir fyrirtækinu Langisjór ehf. Þar má nefna Síld og fisk, Salathúsið, Mata og Matfugl. Gunnar Þór Gíslason sagði í samtali við Skessuhorn að ljóst væri að kaupendurnir færu í umtalsverðar aðgerðir strax til að rétta við rekstur fyrirtækisins. “Við munum fara í aukna sérhæfingu í rekstri fyrirtækja okkar og nýta samlegðaráhrif til hins ítrasta. Þannig mun sumri vinnslu verða hætt í Borgarnesi meðan aðrir rekstrarþættir verða þar auknir. Nú þegar hefur Salathúsið keypt Stjörnusalat, salatgerðina út úr Borgarnes kjötvörum, og verður framleiðslan framvegis undir nafni Salathússins. Það er hinsvegar í skoðun að flytja alla salatvinnslu í Borgarnes úr Reykjavík. Þá höfum við ákveðið að auka í Borgarnesi slátrun og grófvinnslu á nautum og svínum en hættum sauðfjárslátrun sem að vísu hefur verið í litlum mæli undanfarin ár,” sagði Gunnar. Ýmissi fullvinnslu afurða verður hætt í Borgarnesi og flutt suður í fyrirtæki í eigu Langasjós ehf. Þó er fyrirhugað að halda áfram í Borgarnesi vinnslu á ýmsu paté og kjötfarsi svo dæmi séu tekin.

 

Níu manns sagt upp

En breytingar þessar eru engan vegin sársaukalausar fyrir samfélagið því nú þegar hefur níu starfsmönnum af 38 verið sagt upp störfum. “Það er óhjákvæmilegt ef breytingarnar eiga að leiða til hagræðingar í rekstri og að fyrirtækið verði rekið með hagnaði að fækka fólki. Því var sagt upp fólki úr öllum deildum nema salatgerðinni,” sagði Gunnar. Aðspurður segir hann að Þorsteinn Hörður Benónýsson framkvæmdastjóri verði áfram hjá fyrirtækinu og að ekki liggi fyrir á þessari stundu hvort uppsagnir starfsfólks verði fleiri en orðnar eru nú þegar.

Í ljósi erfiðs rekstrar undanfarin misseri eru margir birgjar og viðskiptamenn sem eiga inni hjá fyrirtækinu. Aðspurður um hvort fyrirtækið Borgarnes kjötvörur ehf. verði keyrt í þrot segir Gunnar: “Tæknilega séð er fyrirtækið gjaldþrota. Við munum hinsvegar leita leiða næstu vikurnar til að rétta fjárhag fyrirtækisins við,” sagði Gunnar að lokum.

 

Höfum áhyggjur

Páll S Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar segist aðspurður hafa nokkrar áhyggjur af stöðu mála hjá Borgarnes kjötvörum, enda um fremur stóran vinnustað að ræða í Borgarnesi. “Við höfum áhyggjur af þeirri þróun sem er að verða með fyrirtækið,” segir Páll. Hann segist þó vonast til að nýir eigendur nái að koma rekstri fyrirtækisins á réttan skrið þannig að störfum þar fjölgi á nýjan leik.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is