Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. janúar. 2008 03:58

Starfsleyfi Laugafisks endurnýjað við lítinn fögnuð íbúa

“Þessi ákvörðun er í andstöðu við íbúa á neðri Skaganum og það er óskiljanlegt að bæjarstjórn Akraness skuli mæla með starfsemi þessa fyrirtækis,” segir Guðmundur Sigurbjörnsson, íbúi á neðri Skaga, um þá ákvörðun bæjarstjórnar Akraness að gera ekki athugasemdir við tillögur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að starfsleyfi Laugafisks á Akranesi verði endurnýjað. Bæjarstjórn ákvað þetta á fundi sínum í gær. Þó ítrekaði bæjarstjórn þá skoðun sína að Laugafiski bæri að fara í einu og öllu að settum starfsleyfiskröfum og skilmálum. Leyfið er gefið út til fjögurra ára í senn en getur verið til endurskoðunar og uppsagnar hvenær sem er á samningstímanum.

Guðmundur Sigurbjörnsson segir að íbúar muni mótmæla ákvörðuninni harðlega en á síðasta ári voru bæjarstjóra afhentar 602 undirskriftir íbúa sem mótmæltu lyktarmengun frá Laugafiski og kröfðust úrbóta. Íbúarnir telja að starfsemin stangist á við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. “Eins og ég hef margsagt er út í hött að bæjaryfirvöld skuli þráast við að hafa þetta fyrirtæki inni í íbúabyggð þar sem engin tækni er til staðar sem eyðir þessari ólykt,” segir Guðmundur. “Þó hefur ýmislegt verið reynt, til dæmis að dæla ósongasi inn í þurrkklefana, en það þarf ekki nema að fara á vef umhverfisstofnunar til þess að sjá að óson í miklum mæli er hreinlega skaðlegt heilsu manna. Auk þess borgar Laugafiskur hvorki aðstöðu- né fasteignagjöld á Akranesi þar sem fyrirtækið er skráð að Laugum í Þingeyjarsýslu og Akraneskaupstaður yrði ekki af útsvarstekjum þótt starfsemin yrði færð á Grundartangasvæðið eða á Höfðasel eins og við höfum ítrekað lagt til. Ástandið er óþolandi eins og það er. Það hefur leitt til lægra fasteignaverðs hér á neðri Skaga, maður þarf að margþvo sama þvottinn og getur ekki haft opna glugga þegar vindáttin er óhagstæð.”

Á fundi bæjarstjórnar í gær sátu tveir bæjarfulltrúar af níu hjá í atkvæðagreiðslunni um starfsemi Laugafisks en það voru þær Karen Jónsdóttir bæjarfulltrúi Frjálslyndra og Hrönn Ríkharðsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar. Karen lagði fram bókun þar sem hún sagðist hafa gert formlega athugasemd við auglýst starfsleyfi Laugafisks og því gæti hún ekki greitt atkvæði með tillögunni. Hrönn sagðist skilja áhyggjur og gagnrýni nágranna fyrirtækisins vegna viðvarandi lyktarmengunar. Hinsvegar bæri að geta þess að fyrirtækið skapaði á þriðja tug starfsmanna atvinnu. “Það er skoðun mín að fyrirtækinu skuli veitt skilyrt starfsleyfi og það sæti mjög ströngum skilyrðum um lyktarlausa framleiðslu.  Jafnframt verði skoðaðir möguleikar á því að flytja fyrirtækið innan bæjarfélagsins án íþyngjandi afleiðinga eða áhrifa,” sagði Hrönn.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is