Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
23. janúar. 2008 09:48

Íhuga aðgerðir vegna framgöngu formanns VLFA

“Eftir meintar nornaveiðar formanns Verkalýðsfélags Akraness í garð fyrirtækis okkar íhugum við nú alvarlega stöðu þess. Þegar er komið í ljós að þessar aðgerðir hafa haft alvarleg áhrif á bókunar- og verkefnisstöðu hótelsins í janúar og febrúar. Fram kemur að sumir viðskiptavinir eiga erfitt með að skipta við fyrirtæki sem er ásakað um að “stunda félagsleg undirboð,” eins og Vilhjálmur Birgisson hefur sjálfur orðað það á vefsíðu verkalýðsfélagsins,” segir Hansína B Einarsdóttir framkvæmdastjóri Hótels Glyms í samtali við Skessuhorn.

Hansína segir að áhrif umræðunnar á fyrirtækið séu mjög alvarleg og þá ekki aðeins fyrir viðskipti og bókunarstöðu hótelsins, heldur ekki síst fyrir vellíðan starfsmanna. “Margir okkar starfsmanna hafa verið hjá okkur í þrjú ár eða lengur og þeir hafa ávallt verið stoltir af sínum vinnustað. Þessi umræða hefur haft alvarleg áhrif á þá og þeirra starfsumhverfi.” Hansína kveðst nú vera að íhuga alvarlega stöðu Glyms vegna ummæla og framgöngu Vilhjálms Birgissonar á opinberum vettvangi. “Manninum er greinilega sama þótt hér séu hugsanlega 20 manns í hættu með störfin sín, sem tekið hefur langan tíma að byggja upp, vegna beinna afskipta hans af málinu. Mér er stórlega til efs að tilgangur hans sé fyrst og fremst að tryggja hag starfsmanna, því ef svo væri myndi hann væntanlega beita öðrum heppilegri aðferðum.”

 

Hansína segir umhugsunarvert á þessum tímamótum að þegar störf eru að tapast á Vesturlandi sé mikilvægt að verja önnur. “Störf við okkar fyrirtæki hjóta að vera jafn mikilvæg og störf í fiskvinnslu á Akranesi. Því er sérstaklega áhugavert að lesa fundargerðir frá fyrsta stjórnarfundi VLFA á þessu ári þar sem annað meginefni fundarins var að fjalla um málefni starfsmanna Hótels Glyms þrátt fyrir að vinnustaðurinn sé ekki inn á starfssvæði VFLA, í ljósi þess að formaður Stéttarfélags Vesturlands hafði nokkrum dögum áður sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að ásakanir VFLA eigi ekki við rök að styðjast,” segir Hansína.

 

Eins og lesendur Skessuhorns þekkja kom um miðjan sl. mánuð upp mál nokkurra erlendra starfsmanna Hótel Glyms. Í kjölfar þess fór af stað umræða í fjölmiðlum og harðar ásakanir formanns Verkalýðsfélags Akraness um að hótelið hafi brotið á lögbundnum réttindum viðkomandi starfsmanna. Í framhaldi þess gekk Stéttarfélag Vesturlands í málið og sendi í kjölfarið frá sér fréttatilkynningu í síðustu viku þar sem fram kemur að leiðrétta hafi þurft suma kauptaxta og sé verið að vinna að því í sátt og samlyndi við forráðmenn Hótelsins, ekkert sé hæft í öðru ásökunum.

 

Yfirlýsing Glyms

Hótel Glymur sendi í gær frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu vegna málsins:

“Vegna síendurtekinna rangfærslna bæði í blöðum og útvarpi af hálfu Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness í garð Hótel Glyms vilja forráðamenn fyrirtækisins taka eftirfarandi fram: Fulltrúar Stéttarfélags Vesturlands (SV) og forráðamenn Hótels Glyms áttu fund föstudaginn 11. janúar þar sem þær athugasemdir sem SV hefur komið á framfæri við fyrirtækið voru ræddar. Ábendingum SV, sem er stéttarfélag starfsmanna fyrirtækisins, var vel tekið. Vinna við að fara yfir þau atriði sem ábendingarnar lúta að er þegar hafin og verður lokið í samvinnu við SV og Samtök atvinnulífsins. Þess má geta að ábendingar SV eru í engu samræmi við ásakanir verkalýðsformannsins á Akranesi.”

 

Vilhjálmur stendur fast við sitt

Skessuhorn leitaði til Vilhjálms Birgissonar og bauð honum að svara þeim alvarlegu ásökunum sem fram koma í hans garð. Hann kveðst í engu hvika frá því sem þegar hefur komið fram í fjölmiðlum um málefni starfsmanna Hótel Glyms: “Ég sem formaður VLFA hef fyrst og fremst komið að þessu máli til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð sem klárlega hafa verið í gangi alltof lengi á Hótel Glymi. Það liggja fyrir gögn sem staðfesta þessi félagslegu undirboð, svo sem ráðningarsamningur eins starfsmanns sem kveður á um einungis 317 krónur á tímann fyrsta starfsmánuðinn. Það liggur líka fyrir undirritaður vitnisburður þeirra starfsmanna sem leituðu til VLFA þar sem fram kemur að starfsmenn hafi ekki fengið greidda yfirvinnu þó svo að þeir hafi verið búnir að uppfylla sína dagvinnuskyldu. Einn starfsmaður undirritar að hann hafi einungis fengið fæði og húsnæði fyrir sína vinnu í þrjá og hálfan mánuð. Þessi dæmi sanna að þarna áttu sér stað gróf félagsleg undirboð. Það er stefna stjórnar VLFA, sem ég framfylgi, að sýna fyrirtækjum sem stunda félagsleg undirboð enga linkind, vegna þess að það er verið að gjaldfella launakjör íslensks verkafólks ef slíkt væri látið óátalið.”

Aðspurður um hvort opinber umræða um málið geti ekki leitt til þess að starfsemi hótelsins bíði hnekki, svarar Vilhjálmur: “Það ættu forsvarsmenn fyrirtækja sem ástunda félagsleg undirboð alltaf að hafa í huga að geti gerst. Vissulega er það grafalvarlegt mál ef störf í hvaða fyrirtæki sem er eru í hættu. Það er þó enn alvarlegra þegar starfsmönnum er sagt upp störfum fyrir það eitt að leita réttar síns hjá stéttarfélagi, en slíkt gerðist í tilfelli tveggja starfsmanna á Hótel Glymi. Verkalýðsfélag Akraness hvikar hvergi frá því sem sagt hefur verið í þessu máli, enda höfum við gögn því til staðfestingar. Almennt má segja um þau fyrirtæki sem ekki geta farið eftir leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, svo sem íslenskum kjarasamningum, að þau ættu að hugsa sinn gang alvarlega,” sagði Vilhjálmur Birgisson að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is