Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. febrúar. 2008 10:44

Starfsleyfi Laugafisks endurnýjað til 12 ára

Heilbrigðisnefnd Vesturlands endurnýjaði á fundi sínum í síðustu viku starfsleyfi Laugafisks við Vesturgötu á Akranesi til 12 ára. Nágrannar á neðri Skaga hafa ítrekað kvartað undan lyktarmengun frá fyrirtækinu og gerðu athugasemdir vegna umsóknar forsvarsmanna Laugfisks um endunýjun starfsleyfisins. Fyrir nokkru kom fram að bæjarstjórn Akraness gerði ekki athugasemdir við endurnýjun starfsleyfisins, enda bæri Laugfiski að fara í einu og öllu eftir settum starfsleyfiskröfum og skilyrðum. Meðal annars bárust bæjarstjóra á síðasta ári 602 undirskriftir frá íbúum sem mótmæltu harðlega lyktarmengun frá Laugafiski og kröfðust úrbóta. 

 

Bókaði gegn afgreiðslunni

Jón Pálmi Pálsson, einn nefndarmanna í heilbrigðisnefndinni, sat hjá við afgreiðsluna og lagði fram bókun. Hann sagðist ekki geta samþykkt endurnýjun starfsleyfis til Laugafisks þar sem að tillagan geri m.a. ráð fyrir að fellt verði út ákvæði um að loftræsting fyrirtækisins skuli ekki valda fólki í nærliggjandi húsakynnum eða vegfarendum óþægindum vegna lyktar, hávaða eða annarrar mengunar. Þar með sé í raun viðurkennt að fyrirtækið þurfi ekki að fara eftir þeim upplýsingum sem það lagði sjálft til grundvallar upphaflegri umsókn sinni um starfsleyfi, þ.e. að vinnsla fyrirtækisins væri nær lyktarlaus. Þær upplýsingar hafi vegið mjög þungt á sínum tíma við útgáfu upphaflegs starfsleyfis.

 

Jón Pálmi segir í bókun sinni að fyrirtækið eigi nú þegar að hafa komið upp bestu fáanlegu tækni og uppfylla þau skilyrði um starfsleyfi sem sett eru fyrir atvinnureksturs sem geti haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun telji að öll fyrirtæki eigi nú þegar að uppfylla þau skilyrði. „Að mínu mati hefur fyrirtækið ekki gert það miðað við núverandi stöðu og engar staðfestar tímaáætlanir liggja fyrir frá fyrirtækinu um að slíkt verði gert á næstunni, þannig að það er ljóst í mínum huga að núverandi ástand verður enn til staðar eftir útgáfu starfsleyfis með tilheyrandi árekstrum við nágranna eins og dæmin sýna fram að þessu.“

 

Í bókuninni segist Jón Pálmi telja að eðlilegt væri að bæjaryfirvöld á Akranesi og eigendur Laugafisks hf leituðu leiða til að flytja starfsemi fyrirtækisins frá núverandi stað; „enda þykir mér ljóst, að ekki náist sátt á milli fyrirtækisins og nágranna um starfsemina hvað lyktarmengun varðar. Því væri eðlilegt í ljósi aðstæðna að Heilbrigðisnefnd Vesturlands endurnýjaði starfsleyfið að hámarki til tveggja ára og mæltist til þess við fyrirtækið og bæjarstjórn að teknar verði upp viðræður með flutning á starfsemi þess í huga,“ segir í bókun Jón Pálma Pálssonar vegna starfsleyfis til Laugafisks, sem engu að síður var framlengt til 12 ára eins og áður segir.

 

Íhuga kæru

Guðmundur Sigurbjörnsson er í forsvari fyrir íbúana sem hafa mótmælt mengandi áhrifum Laugafisks á neðri Skaga. Hann segir greinilegt að hvorki bæjarstjórn Akraness né Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi lært neitt af framvindu málsins til þessa, þótt þessir aðilar hafi fengið rassskellingu á síðasta ári þegar íbúarnir kærðu veitingu bráðabirgðastarfsleyfis til Laugafisks án auglýsingar. „Við áttum svo sem alveg von á þessu, því hvorki bæjarstjórnin né heilbrigðisnefndin hafa hugsað um okkur íbúana fram að þessu. Við eigum eftir að koma saman núna og ákveða næsta skref, en ég á frekar von á því að við munum kæra veitingu starfsleyfisins til umhverfisráðuneytis,“ segir Guðmundur.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is