Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. febrúar. 2008 11:22

Nemendahópur frá Laugum sat fastur á þriðja tíma

Þrjátíu manna hópur nemenda og kennara úr Víkurskóla í Grafarvogi og Ingunnarskóla í Grafarholtshverfi í Reykjavík, sat fastur í rútu á þriðja tíma utan vegar milli bæjanna Stóra-Vatnshorns og Vatns í Haukadal í Dalasýslu síðdegis á fimmtudag. Sökum blindbyls og ófærðar og að ekkert farsímasamband er á þessu svæði, gat bílstjórinn ekkert aðhafst og hópurinn, sem var í ungmennabúðunum á Laugum í Sælingsdal í vikunni, gat ekkert annað gert en beðið eftir því að einhver færi um veginn sem veitti aðstoð. Enn og aftur er það að koma í ljós að ónægt fjarskiptasamband á svæðum í Dölunum getur komið sér mjög illa og er óviðunandi.

Að sögn Önnu Margrétar Tómasdóttur, umsjónarmanns á Laugum, eru fimmtudagarnir ferðadagar í ungmennabúðunum og er þá farið í Haukadalinn, á Eiríksstaði og á fjárbúið á Stóra-Vatnshorni, auk þess sem farið er í heimsókn á kúabúið á Erpsstöðum. Ófært var í Haukadalinn á fimmtudagsmorgun og þurfti því að seinka för þar til í hádeginu þegar búið var að moka. Þessum heimsóknum var nýlokið um fjögurleytið. Þegar rútan var aftur á heimleið og komin vel framhjá Stóra-Vatnshorni í bakaleiðinni brast veðrið á að nýju með miklum snjóhriðjum þannig að ekki sást út úr augum.

 

„Það var svo til hreinn vegur, en stiku mun hafa vantað við veginn þannig að þegar dimmdi svona skyndilega náði bílstjórinn ekki að halda stefnunni og bíllinn lenti út af veginum og sat þar fastur. Það var svo ekki fyrr en komið var vel á sjötta tímann sem húsfreyjan á Stóra-Vatnshorni átti leið um veginn og gat veitt okkur aðstoð. Valberg bóndi kom með dráttarvél til aðstoðar og einnig var haft samband að Vatni og bóndinn þar kom á jeppanum til aðstoðar.“

 

Anna Margrét sagði að heima á Laugum hafi verið komið mjög slæmt veður á þessum tíma og fólk farið að ókyrrast um hópinn, enda átti rútan samkvæmt eðilegu að vera komin fyrir nokkru síðan. „Ég hringdi því í Stóra-Vatnshorn og þá var Jóhanna Sigrún húsfreyja nýkomin inn úr dyrunum og sagði mér tíðindin. Það var síðan ákveðið þar sem að óvíst þótti hvort að þessi tækjakostur dygði til að ná rútunni upp að hafa samband við Björgunarsveitina Ósk í Búðardal. Það passaði að þegar bíll frá sveitinni kom á staðinn um hálfsjöleytið var rútan að losna úr festunni,“ sagði Anna Margrét. Hún sagði að hópurinn hafi komið heim í Lauga um hálfáttaleytið, en undir venjulegum kringumstæðum er hálftíma ferð frá Stóra-Vatnshorni að Laugum. Anna Margrét sagði að nemendurnir hefðu verið kaldir og svangir þegar þeir komu heim. Þegar hópurinn síðan lagði af stað í borgina um morguninn hafi allir verið sammála um að ævintýri gærdagsins stæðu upp úr frá dvölinni á Laugum að þessu sinni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is