Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. mars. 2008 03:58

Sauðamessan úr reyfinu

Sauðslegir mættu þeir til viðtals við blaðamann, eins og hæfði tilefninu, yfirsauðirnir tveir, nýlegar búnir að klippa af sér reyfið sem þeir hafa íklæðst síðustu tvö árin. Þar voru mættir Gísli Einarsson Lunddælingur með Mýramannaklippingu og Bjarki Þorsteinsson Borgnesingur með aðra klippingu, tilbúnir að vera ærlegir og segja frá því hvernig fyrirhuguð Sauðamessa ársins sem haldin verður þann 30. ágúst mun koma þátttakendum fyrir sjónir. Reyndar vilja þeir helst teygja lopann og láta drjúgt en hlaupa síðan undir bagga með blaðamanni og fara að reita af sér lagðana.

Sauðamessan verður haldin í Skallagrímsgarði sem þeir félagar segja einn besta haga landsins og vannýtt beitiland. „Við verðum með upptakt í tvo daga fyrir hátíðina,“ segir Bjarki, „á fimmtudag og föstudag.“ Gísli bætir við að á fimmtudeginum verði fornám í sveitamennsku sem mætt hafi sérstökum velvilja innan hagsmunaaðila Bændasamtakanna. „Á fimmtudeginum verður ítarlegt yfirlit yfir fjallskil, göngulag, notkun á neftóbaki, hvort sem það er tekið í nef eða vör, orðfæri, girðingarmáli og þannig má teygja lopann til að sýna fram á þá þróun sem orðið hefur á þessu sviði. Allt verður auðvitað gert með góðum stuðningi Símenntunarstöðvar Vesturlands og Landbúnaðarháskóla Íslands og þar er verið að athuga hvort hægt verði að meta námið til eininga.“

Föstudaginn 29. ágúst verður síðan Galakvöld, sannkölluð lambakjötsveisla „par elegans“ að hætti þeirra félaga. Þar verður færasti matreiðslumaðurinn sem þeir félagar finna fenginn til að elda kræsingarnar. Þessa dagana er verið að gera vettvangskannanir á þessu sviði ásamt bragðprófunum og er niðurstöðu að vænta innan tíðar.

 

Á laugardeginum gengur Sauðamessan sjálf í garð með tilheyrandi ærlegheitum, sauðsleg og kindarleg eins og vera ber. Rætt hefur verið við ýmsa skemmtikrafta sem ekkert verður gefið uppi um enn hverjir verða, einnig aðila sem selja afurðir tengdar sauðkindinni og ýmsu öðru. „Við höfum fengið vilyrði fyrir að hafa hátíðina í og við Skallagrímsgarð og í gegnum tíðina fengið gífurlega gott klapp á bakið fyrir þetta framtak, sem unnið er í algjörum ungmennafélagsanda og ekki gefið okkur sjálfum mikið af aurum í eigin vasa, enda ekki lagt upp með það markmið,“ segir Bjarki. „Stakkurinn í þessu verkefni er sniðinn eftir því fjármagni sem okkur tekst að afla í hvert sinn,“ bætir Gísli við og heldur áfram. „Sauðamessan var bara hugmynd sem kom í einhverju spjalli og hefur undið upp á sig. Kveikjan var kannski einnig sú að reyna að bæta ímynd sauðkindarinnar og fá fjör í bæinn. Ég held að það hafi tekist í þau skipti sem Sauðamessan hefur farið fram.“ Þeir eru sammála um það félagarnir að þeir hefðu ekkert vitað hvað þeir voru að fara út í með þessu tiltæki sínu og viti það í raun ekki enn. „Við viljum endilega biðja alla þá sem vilja koma til samstarfs eða taka þátt á einn eða annan hátt að hafa samband við okkur. Við höfum notið gífurlegs velvilja allsstaðar meðal annars hjá sýslumanni og lögreglu þegar fjárreksturinn fór í gegnum bæinn og við vonum að svo verði áfram,“ segja yfirsauðirnir Bjarki og Gísli.  

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is