Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. mars. 2008 07:28

Bálið eitt virðist bíða Höfrungs

Um mitt síðasta ár óskaði Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans hf. eftir því að gamli Höfrungur, 80 tonna eikarbátur, sem stendur í gömlu dráttarbrautinni á Akranesi, yrði fjarlægður af athafnasvæði fyrirtækisins. Gísli S. Einarsson bæjarstjóri auglýsti þá fyrir hönd Akraneskaupstaðar eftir eigendum bátsins og þegar enginn gaf sig fram eftir margra vikna og mánaða bið, var tilkynnt að þar sem eigandi fyndist ekki yrði skipið rifið eða brennt. Þá höfðu samband þrír aðilar sem kváðust hafa áhuga á skipinu. Nú mörgum mánuðum síðar hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá þessum aðilum að sögn Gísla. Það virðist því blasa við að ekkert bíði gamla Höfrungs annað en bálið. Ingólfur hjá Skaganum segir að skipið verði að fara af svæðinu fyrir sumarið.

Gísli segir að Byggðasafnið að Görðum og Akraneskaupstaður hafi ekki bolmagn til að taka við Höfrungi og gera skipið upp. „Við höfum nóg með kútter Sigurfara þó við förum ekki að bæta við öðru skipi,“ segir Gísli.

 

Höfrungur er eins og margir vita þekkt skipanafn og tengist Akranesi órofa böndum, enda frægt og aflasækið síldarskip á sínum tíma. Höfrungur I eins og skipið heitir var smíðaður í Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts um miðjan sjötta áratug síðustu aldar fyrir Harald Böðvarsson. Það var Skagamaðurinn Magnús Magnússon sem teiknaði og hannaði skipið. Höfrungur var mikið happafley meðan það var í eigu HB & co, en það var síðan selt til Suðurnesja og gert út þaðan um tíma. Aðili sem tengdist þeirri útgerð eignaðist bátinn og vann síðan að endurgerð fyrir nokkrum árum, en  skorti efni til þess að halda verkinu áfram, þurfti frá að hverfa og síðan hefur gamli Höfrungur staðið í reiðuleysi í slippnum.

 

Til skammar fyrir Skagamenn?

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri þekkir nokkuð til Höfrungs, enda var hann sjálfur skipverji á bátnum um tíma. Gísli segir að Garðar Finnsson þekktur aflaskipstjóri hafi verið með Höfrung fyrstu árin. „Þetta var mjög gott sjóskip, mjög stöðugt og hafði góða skipsstroku eins og ég kalla. Hann gekk allt upp í tíu og hálfa mílu á klukkustund sem þykir gott með skip sem var ekki með nema tæplega 400 hestafla vél. Höfrungur aflaði vel bæði á síldinni og í þorskinum. Ég man að hann fiskaði mjög vel hér tvo vetur sem netaveiði var leyfð á miðunum hér fyrir utan og kom margsinnis hingað til hafnar drekkhlaðinn.“

 

Jóhann Ársælsson fyrrum alþingismaður þekkir talsvert til Höfrungs. Hann segir að það væri til skammar fyrir Skagamenn ef þeir förguðu Höfrungi, sem væri að mörgu leyti merkilegt skip, fallega lagað og með merka sögu, hannað af Skagamanni og smíðað á Skaganum. Jóhann sem er lærður skipasmiður frá Þ&E, segist hafa skoðað skipið og skrokkurinn sé merkilega heillegur, enda búið að verja talsverðu í endurgerð hans. „Mér finnst það lágmark að reynt verði að koma honum í geymslu einhvers staðar til að byrja með og sjá til hvort ekki rætist eitthvað úr,“ segir Jóhann.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is