Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
20. mars. 2008 10:35

Þjóðlendumál undirbúin með hnitsetningu jarða

Óðinn Sigþórsson
Búnaðarsambönd og sveitarfélög á Vesturlandi og Vestfjörðum undirbúa þjóðlendumálin, sem hellast yfir þessi landssvæði væntanlega á næsta ári, með því að hnitsetja landamerki jarða. Hnitsetningarverkefnið fór af stað í októbermánuði sl. og hefur Óðinn Sigþórsson verið ráðinn verkefnisstjóri með starfsaðstöðu á skrifstofu Búnaðarsamtaka Vesturlands á Hvanneyri. Hnitverkefnið vinnur Búvest í samstarfi við Landlínur og Fasteignamat ríkisins. Um brautryðjendastarf er að ræða að því leyti að með þessari skipulögðu vinnu er hnitum í landamörkum jarða þinglýst sem skýringagögnum, sem nýtast sem óyggjandi gögn ef upp koma landamerkjadeildur. Hnitsetning landamerkja er að verða mjög brýn víða þar sem þekking á örnefnum og þar með lýsing á landamerkjum virðist ekki erfast milli kynslóða og er þar með að glatast. Nú þegar eru lánastofnanir farnir að krefast óyggjandi gagna varðandi landamerki vegna veðsetninga jarða og lands.

Óðinn Sigþórsson verkefnisstjóri segir í samtali við Skesshorn að grundvöllurinn fyrir þessari yfirgripsmiklu vinnu sé samningur við Loftmyndir ehf. Þessi samningur nær til ársins 2012 og er þessu átaksverkefni ætlaður tími til loka þess árs.

„Hnitsetningin er unnin á uppréttum og hnitsettum myndgrunni Loftmynda. Í langflestum tilfellum er hægt að ganga frá staðsetnignu hnita á skrifstofu Landlína á myndgrunninum án þess að fara á vettvang.  Þó getur í einstaka tilfellum verið nauðsynlegt að fara á staðinn með GPS-tæki, það er ef merkjastaðurinn er mjög ógreinilegur eða hróflað hefur verið við merki.“

 

Svæði sem tengjast þjóðlendum í forgangi

Óðinn segir að nú þegar hafi um 150 jarðaeigendur skráð sig til þátttöku í hnitsetningarverkefninu. „Við höfum reynt að fara skipulega í þetta og látið ganga fyrir þau svæði sem koma til skoðunar þegar þjóðlendukröfur verða gerðar á næsta ári, en þá er Mýra- og Borgarfjarðarsýsla undir. Einnig er þetta komið vel af stað í Dalasýslu, sérstaklega varðandi jarðir sem eiga fjalllendi að afréttinum,“ segir Óðinn, en þessar 150 jarðir eru einungis lítill hluti af öllu því landsvæði frá Kjalarnesi í suðri og vestur um að Ísafjarðardjúpi sem verkefnið nær yfir. Einungis á Vesturlandi eru hátt í þúsund jarðir, 621 í ábúð og 334 eyðijarðir. Aðspurður segir Óðinn að kostnaður við hnitsetningu meðalstórrar jarðar sé um 100 þúsund krónur. Jarðaeigendum gefst að auki kostur, án aukagjalds, að fá hnitsetningu örnefna jarðar eða eignarlands inn á sín kort. „Landið yrði lítils virði ef það héti ekki neitt, eins og segir einhvers staðar,“ segir Óðinn, sem telur að með hnitsetningunni sé verið að bjarga menningarverðmætum og trúlega í leiðinni auka verðmæti bújarða og lands.

 

Ný kynslóð þekkir ekki landamerkin

Óðinn segir að þekking á staðsetningu örnefna á landi séu óðum að tapast. „Þetta á einnig við um staðsetningu örnefna sem landamerki eru dregin um. Ástæður eru margvíslegar, svo sem vegna breyttrar landnotkunar. Meðan fjárbúskapur var á hverjum bæ og allt land smalað mörgum sinnum á ári var alltaf verið að nefna landið sínu nafni þegar smalamennsku var skipað niður. Nú eru dæmi um að bændur fara ekki um landstórar jarðir sínar svo árum skipti.  Sú kynslóð sem nú er að taka við þekkir ekki landamerkin.

Þá eru jarðir að skipta í vaxandi mæli um hendur og í sumum tilfellum þekkja nýir eigendur þeirra ekki mörk jarðar sem keypt er.  Ekki er enn gerður áskilnaður um að í kaupsamningum sé landamerkjum lýst með óyggjandi hætti þegar jarðir eru seldar.  Þess verður þó örugglega skammt að bíða og nú eru t.d. lánastofnanir farnar að gera kröfu um hnitsetningu jarða vegna veðsetninga þannig að upplýst sé um stærð og legu.“

Núgildandi lög um landamerki eru frá árinu 1919. Óðinn segir að þau byggist á þeim aðferðum sem þá voru mögulegar og miðuðust við lýsingu á landamerkjum út frá örnefnum. Við endurskoðun þessa laga, væntanlega fyrr en seinna, megi sterklega gera ráð fyrir að þá verði krafist þeirra vinnuaðferða og gagna sem tiltæk eru í dag og nýtist til framtíðar. Þessvegna sé það ekki spurning fyrir eigendur bújarða og lands að nýta það tækifæri sem býðst til að hnitsetja sínar eignir, eins og t.d. nú gefst með þessu átaksverkefni Búvest.

 

Flókið en spennandi verkefni

Óðinn segir í samtali við Skessuhorn að þrátt fyrir þau gögn sem tiltæk eru, svo sem uppréttu loftmyndirnar og landamerkjabréf, sé um spennandi en í senn nokkuð flókið verkefni að ræða, sérstaklega þar sem þessi skýringagögn við landamerkjabréfið eru unnin til þinglýsingar.

„Þetta krefst þess að landeigendur að merkjalínu séu sammála um gerð og staðsetningu hnita.  Í sumum tilvikum þarf að ákvarða frávik frá hnitpunkti þar sem landamerkin eru breið, svo sem við gil, á eða læk.  Því var nauðsynlegt að leggja í nokkra þróunarvinnu áður en verkefnið fór af stað og fljótlega kom Fasteignamat ríkisins inn í þá vinnu. Við höfum reynt að mæta þeirra kröfum eins og hægt er, en þegar hnitum landamerkja hefur verið þinglýst verða þau gögn gerð aðgengileg á heimasíðu FMR.  Samstarfið við sérfræðinga fasteignamatsins, sem og Landlína, hefur verið bæði gott og árangursríkt,“ segir Óðinn.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is