01. apríl. 2008 09:29
Ferðamálastofa kynnti nýlega hvaða verkefni til úrbóta á ferðamannastöðum yrðu stydd á þessu ári. Alls bárust 152 umsóknir en 60 þeirra hlutu styrki. Til úthlutunar voru um 54 milljónir króna sem skiptast í þrjá flokka. Umsóknir hljóðuðu uppá samtals tæplega 400 milljónir. Til viðmunar við úthlutun styrkja var stuðst við þær meginhugmyndir að framkvæmdin stuðli að náttúruvernd, vinni að uppbyggingu atvinnugreinarinnar og valdi ekki óeðlilegri samkeppni milli einstakra aðila. Auk ofangreindra atriða varðandi forgangsröðun var lögð sérstök áhersla á bætt aðgengi fyrir alla að náttúrulegum áningarstöðum.
Nokkur verkefni á Vesturlandi hlutu styrki. Hæstu upphæðirnar greiðast til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum. Borgarbyggð fær þannig 2,5 milljónir til göngustígagerðar við Grábrók og Snæfellsbær fær 2 milljónir vegna göngustígagerðar á Arnarstapa. Til uppbyggingar á nýjum stöðum fær Hreðavatn ehf. 3 milljónir króna til gerðar áningarstaðar við Glanna í Norðurá.
Sex minni verkefni á Vesturlandi fengu auk þess styrki. Félagsskapurinn Breiðafjarðarfléttan fær hálfa milljón króna til merkingar strandsvæða við Breiðafjörð og þá fær Ferðamálafélag Dala og Reykhóla sömu upphæð til gerðar göngu- og reiðleiðakorts. Framfarafélag Snæfellsbæjar fær 250 þúsund krónur vegna útsýnisstaðar í Ólafsvíkurenni, Eyrbyggja fær sömuleiðis 250 þúsund til að bæta aðgengi að Grundarkampi og Grundarfjarðarbær fær 250 þúsund kr. til stikun gönguleiða frá Grundarfirði til Kolgrafarfjarðar. Loks fær Reykhólahreppur 150 þúsund kr. til göngustígagerðar um fuglaskoðunarsvæði.