04. apríl. 2008 09:12
Kveikt var að nýju á vefmyndavélinni við höfnina á Arnarstapa um páskana, en slökkt hafði verið á vélinni í marga mánuði vegna mikils símakostnaðar, auk þess sem sambandið var svo lélegt að ef samband náðist var myndin mjög afbökuð.
Reikningarnir sem Snæfellsbær þurfti að borga vegna vefmyndavélarinnar á Arnarstapa voru á bilinu 60 til 70 þúsund á mánuði, en með nýrri háhraðatengingu á þessi kostnaður að verða innan við sex þúsund krónur, að sögn Kristins Jónassonar bæjarstjóra í Snæfellsbæ.
Ástæða þessarar miklu lækkunar er háhraðatengingin sem nú hefur fengist vegna samnings sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi og í Borgarbyggð gerðu fyrir nokkru við margmiðlunarfyrirtækið Hringiðuna. Nú þarf ekki lengur að notast við veika ISDN-tengingu frá Símanum á Arnarstapa.
Snæfellsbær var með fyrstu sveitarfélögum á landinu sem kom upp vefmyndavélum í höfnum sínum, á árinu 2006, en nú eru þær komnar víða að sögn Kristins. Hann segir þessar myndavélar fyrst og fremst þjóna forvitni fólks, þetta séu ekki eftirlitsmyndavélar af neinu tagi og ekki með upptökur, enda sé ekki leyfi fyrir slíku frá Persónuvernd.
„Það er ótrúlegasta fólk sem hefur samband við okkur. Það eru dæmi þess að menn hafi verið að skoða myndavélarnar og séð báta fara inn í höfnina, hringi í okkur og spyrji um aflabrögðin og hvort fiskvinnslurnar séu í gangi. Ég býst við að fyrir okkar fólk sem er á ferðalagi sé það vinsælt að skoða myndavélarnir til að sjá hvernig veðrið og aðstæður eru heima.“