03. apríl. 2008 04:01
"Ég ætla bara að biðja ykkur blaðamenn á ágæta Skessuhorni að leiðrétta hinn hroðalega misskilning og handvömm sem blaðamaður Vísis.is varð uppvís að í morgun, þegar hann hefur eftir mér orð á vísi.is sem ég hef alls ekki sagt," segir Sigrún Ámundadóttir, starfsmaður OR í samtali við Skessuhorn. Á fréttavef Vísis greindi frá því á tólfta tímanum í morgun að til stæði að selja gömul líkamsræktartæki úr eigu OR. Þar átti Sigrún m.a. að hafa sagt að tækin væru ekki nógu góð fyrir Reykvíkinga og því yrðu þau seld í heilu lagi út á land. "Eina sem ég sagði við þennan blaðamann Vísis var að ég teldi líklegt að líkamsræktarstöð af landsbyggðinni keypti þessi tæki því þær hefðu oft úr minna að moða en stöðvarnar í Reykjavík. Það að ég hafi borið því við að vera með landsbyggðarhroka er uppspuni blaðamanns Vísis frá rótum. Sökum þess hvernig frétt Vísis var orðuð hef ég og fyrirtækið orðið fyrir miklu aðkasti og ég harma að slíkt mannorðsmorð geti átt sér stað í nútíma fjölmiðlun," sagði Sigrún í samtali við Skessuhornsvefinn.
Þessu til viðbótar má bæta því við að nú klukkan 16 var Vísir ekki búinn að leiðrétta orð Sigrúnar í nýrri frétt, né skrifa afsökunarbeiðni, heldur breytti miðillinn upprunalegu fréttinni á Vísi, sem óneitanlega gerir ekki sama gagn og að ný frétt með leiðréttingu sé skrifuð.