04. apríl. 2008 10:08
Þátttöku Skallagrímsmanna í úrslitakeppninni í körfubolta er lokið. Þeir töpuðu í Grindavík í gærkveldi 78:93 á sama tíma og ÍR-ingar rúlluðu yfir KR-inga í Vesturbænum. Þessi úrslit gera það að verkum að það verða Grindvíkingar sem mæta Snæfelli í fjögurra liða úrslitunum. Fyrsti leikur þeirrar viðureignar fer fram í Grindavík á mánudagskvöld.
Grindvíkingar léku grimma vörn í leiknum í gær og stíluðu inn á að gera stóru mönnunum í teignum erfitt fyrir og loka á hina fyrir utan. Það tókst vel hjá heim, forysta heimamanna var orðin 14 stig eftir fyrsta leikhluta og 20 stig skömmu síðar. Munurinn hélst á öðrum tugnum fram á síðustu mínúturnar þegar Skallagrímsmönnum tókst að minnka forskot heimamanna niður í sex stig. En Grindvíkingar eiga skyttur góðar og þeir Þorleifur og Páll Axel voru funheitir og svöruðu með þremur þristum í röð. Þar með var sigurinn Grindvíkinga, lokatölur 93:78.
Stigahæstir í liði Skallagríms voru Zekovic með 25 stig og Darrell Flake með 23. Aðrir komu langt á eftir en börðust engu að síður vel í leiknum: Allan Fall 11, Florian Miftari 8, Axel Kárason 5, Pálmi Sævarsson 3, Pétur Már Sigurðsson 2 og Sigurður Þórarinsson 1. Hjá Grindavík var Þorleifur Ólafsson stigahæstur með 30 stig og Páll Axel Vilbergsson gerði 23.