04. apríl. 2008 02:31
Grundarfjarðarbær hefur ráðið Jónas Víði Guðmundsson sem markaðsfulltrúa bæjarins til 18 mánaða. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjarstjóri segir að Jónas Víðir sé þegar byrjaður að kynna sér málin og að hann verði í hálfu starfi fram til 1. ágúst næstkomandi. Eftir það verður hann í fullu starfi. Jafnframt segir hann starf Jónasar Víðis ekki eingöngu tengt ferðaþjónustu heldur lúti það frekar að því að kynna og markaðssetja sveitarfélagið.
Eins og fram kom í Skessuhorni fyrir skömmu ákvað sveitarstjórn Grundarfjarðar að ráðast í stefnumótunarvinnu í ferðaþjónustu fyrir sveitarfélagið sem nokkurs konar mótvægisaðgerð af hálfu sveitarstjórnarinnar. Bæjarfélagið varð sem kunnugt er nokkuð illa úti í niðurskurði ríkisstjórnarinnar á þorskveiðiheimildum en Guðmundur Ingi segir enn óljóst hvort Grundarfjarðarbær muni fá styrk frá hinu opinbera vegna þessa nýja verkefnis.