07. apríl. 2008 04:12
Erna Karla Guðjónsdóttir opnaði í lok síðasta árs vefverslunina Gjugg.is en Erna flutti nýverið heim til Akraness eftir að hafa verið búsett í New York um árabil. Í versluninni býður hún Íslendingum hágæða barnafatnað og –vörur sem hún flytur inn frá Bandaríkjunum. “Þetta kom nú aðallega til af því að ég var orðin svo leið á því hvað úrvalið af strákafötum var lélegt,” segir Erna Karla og hlær en hún á tvo stráka, Úlf sem er 5 ára og Grím sem er 2 ára. Þriðja barnið er væntanlegt í heiminn á næstu dögum. “Svo var ég líka orðin þreytt á því hvað mér fannst föt endast stutt og langaði að bjóða upp á hágæðafatnað á góðu verði.”
Á heimasíðunni býður Erna upp á föt á börn á aldrinum 0-8 ára, kerrupoka, ungbarnaskó og fleira. Vöruúrvalið á enn eftir að aukast því fljótlega munu bætast við sérsmíðaðir skartgripir fyrir börn. Eiginmaður Ernu, Gunnlaugur Orri Finnbogason, er gullsmiður að mennt en hann hefur starfað í New York undanfarin ár. “Okkur langar að bjóða upp á dálítið öðruvísi skartgripi fyrir börn, íslenska og sérsmíðaða,” segir Erna.
Hún segir viðtökurnar við Gjugg.is hafa verið vonum framar. “Ég hef ekkert auglýst að ráði en viðtökurnar hafa verið frábærar. Kerrupokarnir hafa verið sérstaklega vinsælir,” segir hún. “Ég hef lagt mjög mikið upp úr góðri þjónustu og fólk hefur lýst yfir ánægju sinni með það. Við bjóðum bæði fría heimsendingu á vörum og endurgreiðslu ef fólk er ekki ánægt með vöruna.” Erna útilokar ekki að færa út kvíarnar í náinni framtíð. “Vefverslun er ágætis leið til að byrja auk þess sem þetta gefur mér möguleikann á að vera meira heima með börnunum. En það hefur alltaf verið inni í myndinni að finna gott húsnæði og opna verslun í framhaldinu.”