08. apríl. 2008 04:56
Sigurður Óli Ólason, stjórnarformaður Mjólku og bóndi á Lambastöðum á Mýrum kynnti nýja framleiðsluafurð Mjólku á bændafundi í Lyngbrekku í liðinni viku. Um er að ræða heilsujógúrt ýmist með bragðefnum eða án, pakkað í plastbrúsa. Þessi nýja afurð fór í verslanir Bónuss um síðustu helgi. Aðspurður segir Sigurður Óli að starfsemi Mjólku gangi vel um þessar mundir. “Við finnum fyrir miklum samlegðaráhrifum eftir kaupin á sósugerðinni Vogabæ. Velta hefur aukist og afkoman batnað. Í raun erum við að ná þeim merka áfanga að ætla að lifa af sem verðugur keppinautur stóra bróðurs á markaðinum, en það er meira en mörg smærri fyrirtæki í mjólkuriðnaði hafa náð,” sagði Sigurður Óli. Á myndinni er hann að kynna jógúrtið fyrir Pétri Diðrikssyni, bónda á Helgavatni, greinilega við góðar undirtektir.