10. apríl. 2008 11:14
Nokkrar breytingar verða á leikmannahópi Víkings Ólafsvík í 1. deildinni í fótboltanum í sumar. Meðal annars eru tveir nýir miðherjar komnir til liðsins, Alfreð Elías Jóhannesson frá Grindavík og Eyþór Guðnason úr HK. Einnig nýr leikmaður frá Bosníu, Senid Kulas sem leikur djúpan miðjumann og miðju- og kantmaður frá Slóveníu, Miroslav Pilipovic. Víkingur varð í 10. sæti deildarinnar í fyrra, en Jónas Gestur Jónasson formaður knattspyrnudeildar segir að stefnan sé að verða ofar í deildinni í ár.
Að sögn Jónasar Gests byggir Víkingur á góðum hópi ungra pilta í öðrum og þriðja aldursflokki. Þar af eru tveir nafnar í hópnum, reyndar aðeins 16 ára, sem koma væntanlega til með að leika stórt hlutverk í liðinu í sumar, en þeir eru báðir í 17 ára landsliðinu. Þetta eru þeir Brynjar Gauti Guðjónsson og Brynjar Kristmundsson sem komu þrátt fyrir ungan aldur við sögu í 6-12 leikjum Víkings í fyrra.
Víkingar horfa nú á eftir þeim öfluga miðjumanni Helga Reyni Guðmundssyni sem hættur er knattspyrnuiðkun og fluttur suður. Þá eru strákar sem voru í láni hjá félaginu í fyrra farnir, Ellert Hreinsson úr Breiðabliki er farinn í Stjörnuna, Birgir Hrafn Birgisson í Fjölni og HK-maðurinn Sigurður Víðisson gekk til liðs við Fjarðarbyggð.
Varnarleik Víkings verður eins og síðasta sumar stýrt af bosníska leikmanninum sterka Dalibor Nedic. Landi hans Ejub Purisevic hefur þjálfað Víking frá árinu 2003 og haft yfirumsjón með þjálfun ungra knattspyrnumanna í sameinuðu liði Snæfellsness.