14. apríl. 2008 12:44
Skagamenn sigruðu Þrótt í lokaleik sínum í riðlakeppni Lengjubikarsins í Egilshöll á sunnudag. ÍA-liðið sigraði 2:1 og tryggði sér þar með sæti í úrslitunum, þar sem þeir mæta næst FH eða KR. Þetta kemur fram á heimasíðu Knattspyrnufélags ÍA.
Skagamenn voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 1:0 í leikhléi með marki Svadomovic eftir góða sendingu frá Stefáni Þórðarsyni. Leikurinn jafnaðist í upphafi seinni hálfleiks og náðu Þróttarar að jafna með að því er virtist sjálfsmarki Dario Cingel. Það var síðan Stefán Þórðarson sem skoraði sigurmarkið um miðjan hálfleikinn. Í kjölfarið var Hirti Hjartarsyni, fyrrum leikmanni ÍA í liði Þróttara, vikið af leikvelli fyrir mótmæli, en Þróttarar voru ósáttir og töldu að búið hefði verið að dæma aukaspyrnu áður en markið var skorað.
Byrjunarlið Skagamanna í leiknum var þannig skipað: Trausti Sigurbjörnsson, Guðjón Sveinsson, Heimir Einarsson, Árni Thor Guðmundsson, Dario Cingel Jón Vilhelm Ákason, Þórður Guðjónsson, Bjarni Guðjónsson, Helgi Pétur Magnússon, Stefán Þórðarson og Svadomovic.