15. apríl. 2008 08:30
Á þessu ári verður söngfélagið Vorboðinn í Dalabyggð sextugt. Af því tilefni verða félagar með afmælistónleika á laugardag í Dalabúð. Núverandi stjórnandi kórsins er Halldór Þórðarsson.
Söngfélagið Vorboðinn var formlega stofnað í janúar 1948. Starfandi félagar eru 23 úr allri Dalabyggð og meðal annars kemur einn félagi norðan af Ströndum til að syngja með. Að sögn Magnínu Kristjánsdóttur formanns hefur kórinn verið starfandi síðan með smávægilegum hléum og sungið við ýmis tækifæri.
Meðal annars hefur í langan tíma verið fastur liður að handa jólatónleika í Breiðabólstaðarkirkju á Skógarströnd, ásamt hausttónleikum í heimabyggð. Æft er einu sinni í viku frá 1. september til 1. maí en félagar taka sér frí yfir sumartímann. Magnína segir vortónleikana venjulega hafa verið haldna á fjarlægari slóðum en að þessu sinni verði þeir í Dalabúð vegna afmælisins. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og verður kaffi og afmælisterta á eftir. „Við bjóðum alla hjartanlega velkomna til að fagna með okkur á þessum tímamótum og vonum bara að sem flestir sjái sér fært að mæta."