21. apríl. 2008 03:08
Rúmlega 200 manna hópur starfsmanna álversins í Straumsvík kom við á Akranesi síðastliðinn föstudag í óvissuferð. Hópurinn fór í ratleik og gekk um allan bæ í leit að vísbendingum og merkilegum stöðum. Mikið var leitað til heimamanna eftir aðstoð við að finna hin ýmsu kennileiti. Tóku þeir villuráfandi hópunum mjög vel og eiga þakkir skildar fyrir þolinmæðina.
Að ratleik loknum var ferðinni heitið á Byggðasafnið þar sem bæjarstjórinn Gísli S. Einarsson tók á móti hópnum með harmonikkuleik og söng. Er mál manna að heimsóknin hafi verið vel heppnuð og var hópurinn ánægður með að sækja Akranes heim og skoða áhugaverða staði fótgangandi í blíðskaparveðri.
Eftir dvölina á Akranesi var haldið rakleiðis í Hvalfjörðinn þar sem dansað var og sungið framundir miðnætti í húsakynnum Ungmennafélagsins Drengs. Starfsmenn ISAL vilja koma þökkum til Akurnesinga fyrir frábæra skemmtun og góða stund í góðu veðri, segir í tilkynningu frá Jóni Hannesi Stefánssyni hjá starfsmannafélaginu í Straumsvík. Óvissuferðin var skipulögð í samvinnu við Markaðsskrifstofu Akraness.