28. apríl. 2008 08:31
Á fundi í Félagi eldri borgara í Borgarnesi og nágrenni fyrir skömmu var samþyktt ályktun um almenningssamgöngur þar sem komið er inn á áætlunarferðir hópferðabíla, skort á leigubílum í sveitarfélaginu og nauðsyn þess að gerðir séu góðir göngustígar. Ályktunin var send byggðaráði sveitarfélagsins sem tók hana fyrir á síðasta fundi sínum og þakkaði félaginu fyrir góðar ábendingar. Í ályktuninni er bent á að margir eldri borgarar aka ekki bílum og eru því háðari almenningssamgöngum og öðrum samgönguúrræðum en ýmsir aðrir hópar í samfélaginu. Því fagnar félagið hugmyndum um að hefja strætisvagnaferðir milli Borgarness og Reykjavíkur um Akranes.
Þá fagnar félagið stofnun ferðaþjónustu fatlaðra og aldraðra í Borgarbyggð, sem vissulega bætir úr brýnni þörf þeirra, sem njóta þjónustu hennar. Jafnframt bendir fundurinn á að það veldur óþægindum að ekki er starfandi í sveitarfélaginu neinn aðili, sem sinnir leigubílaakstri og beinir hann því til sveitarstjórnar, hvort hún geti á einhvern hátt stuðlað að því að slík starfsemi verði tekin upp í sveitarfélaginu.
Loks bendir félagið á gildi þess að hafa innan þéttbýlisins greiðfærar gönguleiðir þannig að þær örvi íbúana til hollrar útivistar og hreyfingar. “Við göngustígana þurfa að vera þægilegir setbekkir með hæfilegu millibili, þar sem vegfarendur geta tyllt sér niður og notið útivistarinnar. Fundurinn beinir því til sveitarstjórnar að taka tillit til þessa við skipulag nýrra hverfa og jafnframt að athuga hvernig hægt sé að bæta aðstöðu til útivistar innan núverandi þéttbýlis.”