29. apríl. 2008 12:52
Lögreglan á Akranesi tók mann grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna fyrr í vikunni sem í dag verður að teljast til hversdagslegra frétta. Ökumaður og farþegi úr bifreiðinni voru færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu. Við nánari skoðun kom í ljós að ökumaðurinn var réttindalaus og á stolnum bíl. Í bílnum fannst auk þess myndavél sem stolið hafði verið í innbroti fyrr sama dag. Fleira bættist síðan við þegar á yfirheyrslur leið. Fyrr um daginn höfðu sömu menn stolið bensíni á bensínstöð í Reykjavík og nokkru seinna höfðu þeir reynt að stela fatnaði í verslun á Akranesi. Mennirnir gengust við brotum sínum og voru síðan fluttir til Reykjavíkur en farþeginn úr bifreiðinni var eftirlýstur vegna annarra mála í Reykjavík.