Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. maí. 2008 11:04

Formaður félagsmálaráðs á móti komu flóttafólksins

Magnús Þór Hafsteinsson, formaður félagsmálaráðs Akraneskaupstaðar lagði í gær fram minnisblað á meirihlutafundi um málefni flóttafólks sem til umræðu hefur verið að Akraneskaupstaður taki við. Minnisblaðið hefur Magnús Þór auk þess sent Skessuhornsvefnum til birtingar í heild sinni og er það hér neðar á síðunni undir “Aðsendar greinar”. Magnús Þór rekur þar aðstæður þess flóttafólks sem um ræðir, beiðni félagsmálaráðuneytisins um að Akraneskaupstaður taki við fólkinu, undirbúning hér heima fyrir og aðstæður til móttöku stórs hóps flóttafólks á Akranes nú. Niðurstaða hans er sú að ekki sé tímabært að Akraneskaupstaður taki við þessum hópi. Lokaorð hans í minnisblaðinu eru þessi: “Miðað við skamman aðdraganda, lítið svigrúm til undirbúnings, mikla óvissu í málinu og þær horfur sem nú eru í bæjarfélaginu þá tel ég alls ekki tímabært að Akranesbær fallist á að taka á móti flóttafólki að svo stöddu. Sem formaður félagsmálaráðs treysti ég mér ekki til að mæla með þessu.”

 

Tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi

Á bæjarstjórnarfundi næstkomandi þriðjudag verða málefni flóttamannahópsins til umræðu. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er afstaða bæjarfulltrúa mismunandi til málsins og má því búast við að tekist verði á um það á fundi bæjarstjórnar. Þess ber að geta að Magnús Þór Hafsteinsson formaður félagsmálaráðs er varabæjarfulltrúi fyrir Frjálslynda og óháða og situr því ekki í bæjarstjórn. Ekki er því hægt að segja til um það hvort meirihluti bæjarstjórnar sé klofinn í afstöðu sinni til málsins. Því er ekki hægt að spá fyrir um hvernig atkvæðagreiðsla fari um það, en alveg liggur ljóst fyrir að meðal almennra bæjarbúa eru skoðanir mjög skiptar um þetta mál.

 

Ekki upplýst nógu vel

Í minnisblaði sínu gerir Magnús Þór mjög alvarlegar athugasemdir við allan tilbúnað umhverfis þetta mál. “Stjórnvöld hafa samband við okkur fyrir nokkrum vikum síðan og stilla okkur nánast upp við vegg. Við erum krafin svara um það hvort við ætlum að taka við flóttafólki - já eða nei. Settur er mjög þröngur tímafrestur og okkur tjáð að annaðhvort skuldbindum við okkur nú til að taka á móti báðum hópum eða ekki neinum.  Ekki fylgja þessu neinar frekari upplýsingar varðandi það fólk sem um ræðir,” segir hann og síðar í sömu málsgrein segir: “Ég hef ákveðnar grunsemdir um að stjórnvöld séu búin að hafa það á prjónunum í allnokkurn tíma að taka á móti flóttafólki frá Miðausturlöndum og lýsi furðu minni yfir þeim makalausa dónaskap sem Akranesi er sýndur sem sveitarfélagi að við séum ekki upplýst betur en raun ber vitni.”

 

Höfum nóg úrlausnarefni fyrir

Þá kemur Magnús Þór að innri málefnum bæjarfélagsins og möguleikum þess til móttöku hópsins. Hann segir: “Akranes hefur stækkað mjög hratt undanfarin misseri. Íbúum hefur fjölgað hraðar en dæmi eru um fyrr. Þetta er jákvætt en hefur í för með sér ákveðna vaxtarverki sem enn eru ekki komnir fram að fullu. Við höfum staðið í mikilli varnarbaráttu við að reka okkar velferðarkerfi og sinna lögbundinni þjónustu á félagsmálasviðinu. Sömuleiðis hefur staðan verið þröng á skólasviðinu, bæði varðandi grunnskóla og leikskóla. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegu átaki í framkvæmdum á vegum bæjarins til að mæta þeirri þjónustuþörf sem kemur í kjölfar mikillar íbúafjölgunar. Það er mitt mat að við þurfum á öllu okkar að halda við að einbeita okkur að þessum verkefnum á næstu misserum ef vel á að takast til.

Þá segir Magnús að nú þegar séu ýmis mál sem félagsmálaráð glími við og séu afleiðing efnahagsástandsins. Hann segir félagsleg vandamál vera að aukast í bænum. “Það kreppir hratt að í þjóðfélaginu, við höfum lent í skakkaföllum í atvinnulífinu sem enn sér ekki fyrir endann á.”

 

Að lokum segir formaður félagsmálaráðs að ef bæjarfélagið taki að sér stóran hóp flóttamanna sé um að ræða meiriháttar pólitíska ákvörðun og alger stefnubreyting á félagslega sviðinu. “Með þessu er sveitarfélagið hætt að einbeita sér að því að sinna lögbundnum velferðarskyldum sínum, en til viðbótar byrjað að bera ríkar skyldur og sinna alþjóðlegu hjálparstarfi innan marka bæjarfélagsins.”

 

Sjá grein Magnús Þórs í heild sinni hér neðst á síðunni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is